Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor, skrifar á fésókarsíðu sína:
Nafnið Aron er gott dæmi um biblíuleg áhrif á íslenskar nafngjafir. Kemur mjög snemma fyrir en vinsældir þess hafa aukist mjög á allra síðustu árum. Að öðrum ólöstuðum var Aron Pálmarsson hetja íslenska handboltalandsliðsins sem náði jafntefli við Frakka, eitt sterkasta landslið heims á HM í gærkvöldi. Athygli hefur vakið að þrír í íslenska hópnum bera nafnið Aron; þjálfarinn Aron Kristjánsson og markvörðurinn Aron Rafn auk markaskorarns mikla. – Aron, nafni þeirra í Biblíunni, var eldri bróðir Móse og hálparhella hans í samskiptum við faraó og í óbyggðagöngunni frá Egyptalandi. Þeir bræður eru þarna saman á mynd snillingsins Marc Chagall (1887-1985). Ekkert fór þó fyrir biblíulegu tungutaki í lýsingu íslenska íþróttafréttamannsins í gærkvöldi. En á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 komst íslenski þulurinn eitt sinn mjög biblíulega og skemmtilega að orði í hrifningu sinni: „Þýska vörnin opnaðist eins og Rauða hafið fyrir Móse.“