Í ár er minnst 400 ára afmælis Hallgríms Péturssonar prests og merkasta sálmaskálds Íslendinga. Það hefur verið gert með ýmsum hætti, m.a. tónleikum, ráðstefnum, guðsþjónustum, sýningu á Landsbókasafni Íslands, útgáfu og flutningi verka Hallgríms í tali og tónum. Hallgrímur var þekktastur fyrir Passíusálmana sína sem voru fyrst gefnir út á prenti árið 1666. Það má segja að meðal íslenskra sálmaskálda hefur Hallgrímur Pétursson þá sérstöðu að sálmar hans hafa verið sungnir og lesnir meira en nokkurs annars skálds. Merkasta verk hans, Passíusálmana, hefur þjóðin lesið og sungið á hverri föstu um aldir og enn þann dag í dag eru sálmarnir lesnir í útvarpinu á hverju kvöldi alla virka daga föstunnar. Hallgrímur samdi fjölda trúarlega sálma og sótti efnivið sinn í Biblíuna.
Í gær komu út tvær bækur, Hallgrímskver, ljóð og laust mál eftir Hallgrím Pétursson en Forlagið gefur út þá bók. Einnig kom út á ensku doktorsverkefni Margrétar Eggerstdóttur, rannsóknarprófessors en hún er okkar fremsti fræðimaður um Hallgrím Pétursson. Bókin heitir Icelandic Baroque. Poetic Art and Erudition in the Works of Hallgrímur Pétursson eftir Margréti í þýðingu Andrews Wawn. Cornell University Library gefur þá bók út.
Dr. Margrét Eggertsdóttur er rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún er þekktust fyrir þekkingu sína á verkum Hallgríms Péturssonar og hefur unnið að fræðilegri heildarútgáfu verka hans.
Steinnunn Jóhannesdóttir rihöfundur gaf einnig nýlega út ákaflega fallega barnabók um Hallgrím sem heitir,, Jólin hans Hallgríms“ og fjallar um Hallgrím þegar hann er sjö ára og upplifir aðventuna heima í Gröf á Höfðaströnd árið 1621. Steinunn hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir ritstörf sín.