Nelly Bubes er fædd 18. Júní 1949 í Kasakhstan. Hún á þýskan föður og rússneska móður og talar rússnesku reiprennandi. Hún lærði myndlist í Kasakhstan og starfaði sem myndlistarkennari en sérgrein hennar er grafísk hönnun. Hún hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum, bæði í Kasakhstan og í Evrópu en fyrsta einkasýning hennar var árið 1997. Hún hefur hlotið verðlaun fyrir list sína og fjölda viðurkenninga. Hún málaði trúarlegar myndir fyrir Biblíufélagið í Kasakhstan sem hafa meðal annars birst í bókum sem gefnar hafa verið út á norsku.
Nú býður norska biblíufélagið myndir frá Nelly til sölu á netverslun þeirra. http://www.bibel.no/Verbum/Nettbokhandel/Alternative-produktkategorier/Nelly-Bube
„Það sem vekur athygli í myndum hennar er gull-liturinn sem er áberandi í rússneskri myndlistarhefð; hann er tákn eilífðarinnar, nærveru Guðs“ útskýrir Gunnar Danbolt, prófessor í evrópskri listasögu.
„Í myndunum mætast austrænar og vestrænar hefðir. Persónurnar eru teiknaðar einfaldar, litríkar eins og oft er í austrænni hefð. Myndin af Jesú er sótt til Mið-Asíu, Jesús er ekki ljós yfirlitum eða norrænn, hún túlkar Sakkeus tollheimtumanninn sem mongólískan auðmann og síðustu kvöldmáltíðina málar Nelly eins og hefðbundna kvöldmáltíð í Kasakhstan, þar sem setið er saman í hring“ segir Gunnar.
„Nelly notar mikið ramma í sínum myndum og hún segir oft söguna í gegnum þá. Í verki hennar um miskunnsama Samverjann, þar er myndefnið sett fram nánast eins og í teiknimyndaseríu. Í öðrum myndum fer myndefnið út fyrir rammann eins og við skírn Jesú, þá er dúfan, í líki heilags anda, máluð fyrir utan rammann.
Í mörgum mynda hennar má finna hebreska stafi, egypskt myndletur, tákn frá Kasakhstan, merki um arfleið, í myndunum er að finna ráðgátu og það er það sem gerir list svo spennandi, við skiljum ekki allt“
Hægt er að skoða úrval myndanna á heimasíðu norska biblíufélagsins.
http://www.bibel.no/Nyheter/Nyheter2014/Bibel061114