Tónlist vekur upp mismunandi viðbrögð hjá fólki. Fólk getur upplifað tónlist almennt eða persónubundið, almennt er átt við að fólki finnst tónlist glaðleg eða dapurleg en þegar talað er um að upplifa tónlist persónubundið þá er það oft háð tilfinningum okkar, hvernig við erum stemmd. Ef við erum döpur þá vekur tónlistin allt önnur viðbrögð hjá okkur en ef við erum glöð. Í kenningum Suzanne Langer, sem er heimspekingur, er því haldið fram að  tónlist sé tilfinningar í tónum. Tónlistin er allsstaðar, hún er allt í kringum okkur og þörf manneskjunnar til að tjá sig með tónum hefur alltaf verið til staðar. Tónlistin varð þess vegna fljótt í sögunni hluti af trúarlegum athöfnum. Í gamla testamentinu er víða talað um tónlist og t.d. spilaði Davíð konungur á hörpu og tónlistarfólk á öllum tímum hefur sótt innblástur í Biblíuna t.d. Bach, Händel og Mozart. Orðið Óratoría sem er algengt orð í tónlistarsögu þýðir á latnesku að biðja eða tala við Guð. Óratoría er stórt tónverk með trúarlegum textum, með einsöng, kór og hljómsveit. Í 150 Davíðssálmi er fjallað um lofgjörðina.
Hallelúja.
Lofið Guð í helgidómi hans,
lofið hann í voldugri festingu hans.
Lofið hann fyrir máttarverk hans,
lofið hann vegna mikillar hátignar hans.
Lofið hann með lúðurhljómi,
lofið hann með hörpu og gígju.
Lofið hann með bumbum og gleðidansi,
lofið hann með flautum og strengjaleik.
Lofið hann með hljómandi skálabumbum,
lofið hann með hvellum skálabumbum.
Allt, sem andardrátt hefur, lofi Drottin.
Hallelúja.