Allir Íslendingar þekkja Gretu Salóme Stefánsdóttur. Þessi yndislega söngkona, fiðluleikari, tónskáld og lagahöfundur heillar alla með aðlaðandi framkomu. Lag hennar ,,Mundu eftir mér“ var valið sem framlag Íslands til söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva í Bakú árið 2012.  Árið 1991 þegar Greta var fimm ára gömul hóf hún tónlistarnám. Hún hefur lokið BA gráðu í fiðluleik frá Listaháskóla Íslands en síðan hóf hún meistaranám í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi. Greta leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfar  að sjálfstæðum verkefnum. Lag hennar “Betlehem” var valið jólalag ársins á Rás 2 árið 2008. Fyrsta plata Gretu Salóme kom út árið 2012 en hún bar heitið ,,In the Silence“.  Greta hefur vakið eftirtekt með sinni fallegu tónlist.  Á afmælisári Biblíufélagsins mun Greta Salóme semja lag út frá texta Biblíunnar. Þessi frábæra listakona segir:

,,Biblían er mín bók, bók bókanna og er mér mjög mikils virði. Í henni finn ég svör við öllum þeim spurningum sem ég kann að hafa, öllum þeim vangaveltum sem upp koma í huga minn. Hún er því eins konar leiðarvísir fyrir lífið. Í textum Biblíunnar er að finna huggun og von, uppörvun og hvatningu. Biblían er líka svo fjölbreytt, þar er að finna ljóð, sögur, frásagnir og líkingar.  Uppáhaldsbókin mín í Biblíunni er Jesaja en þar er að finna fallegustu fyrirheit sem nokkurn tímann hafa verið gefin“.