,,Fyrir mér er Guð raunverulegri en áður “ sagði landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson í viðtali við Fréttablaðið.  Faðir hans Hallfreð Emilsson lést í síðasta mánuði eftir baráttu við krabbamein. Emil Hallfreðsson spilar með ítalska liðinu Hellas Verona. Hann sagði í viðtalinu að hann hefði fengið mikinn stuðning frá leikmönnum liðsins en þeir spiluðu með sorgarborða um handlegginn til minningar um Hallfreð. Emil sagði í viðtalinu að fyrir honum væri Guð enn raunverulegri en áður og þrátt fyrir allt hefði trú hans styrkst. Sjá nánar á visir.is/section/IDROTTIR

Kristið fólk sem gengur í gegnum erfiðleika vitnar oft um slíka trúarsannfæringu og hvað trúin hefur veitt mikinn styrk á erfiðum stundum í  lífinu. Á Ítalíu er fólk mjög trúrækið og leitar til Guðs í gleði og sorg. Þá er leitað í ritningarvers í Biblíunni sem gefa huggun og von í erfiðum kringumstæðum.  Í Matteusarguðpsjalli 11 kafla 28-30 stendur: Komið til mín,öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Margir sálmar í sálmabók Þjóðkirkjunnar eru með innihaldsríkum textum sem fjalla um huggun og von. Einn þeirra er sálmur eftir Helga Hálfdánarson.

Hvað má hvíld mér veita,
harmar lífs er þreyta,
og mig þrautir þjá?
Hvar má huggun finna?
Hvar er eymda minna
fulla bót að fá?
Hér er valt í heimi allt,
sorg og nauðir, sótt og dauði
sífellt lífi þjaka.

 

Burt frá böli hörðu,
burt frá tára jörðu
lít þú upp, mín önd.
Trúan ástvin áttu
einn, sem treysta máttu,
Guðs við hægri hönd.
Jesú hjá er hjálp að fá,
hann þér blíður huggun býður,
hvíld og lækning meina.