Kinube er ættuð úr nágrenni Chennai. Vegna blindu sinnar hefur hún upplifað mikla höfnun í lífi sínu og hún hefur oft fundið fyrir einmanaleika. Samt lét Indverska biblíufélagið hana hafa Biblíu á blindraletri til umráða. Eftir að hafa lesið hana, finnur hún fyrir velþóknun og því að hún sé dýrmæt. Eitt vers gefur henni sérstakan kraft: „Með ævarandi elsku hef ég elskað þig, fyrir því hef ég látið náð mína haldast við þig“ (Jer 31.3). Þetta spekiorð hefur mikla þýðingu fyrir hana, því að á Indlandi er litið á blint fólk sem mikla byrði fyrir fjölskyldur sínar. Mörgu fólki er útskúfað eða það sent út til að betla.
Mörg börn eru blind á Indlandi. En aðeins fá eru svo heppin að fá að vera tekin inn í blindraskóla. Starfsfólk Indverska biblíufélagsins heimsækir þessa skóla og sér þeim fyrir bókum um Biblíuna á blindraletri. Þannig læra börnin að lesa blindraletur. Og þau komast í kynni við biblíutexta þess Guðs, sem elskar þau eins og þau eru. Þannig eykst sjálfsvitund þeirra og þau treysta meira á sína eigin færni. Það hjálpar þeim líka að standa á eigin fótum við skólalok hvað atvinnu varðar. Þau hafa lífsviðurværi sitt af tónlistarkennslu, körfufléttun, nuddi eða saumaskap, eða starfa við síma- eða tölvuþjónustu. Þá geta þau meira að segja framfleytt fjölskyldum sínum.
Kveðjur frá Indverska biblíufélaginu
„Blint og sjónskert fólk á að geta hagað lífi sínu með sjálfstæðum hætti,“ segir Mani Chacko, aðalritari Indverska biblíufélagsins. „Fyrir tilstilli biblíurita á blindraletri finnur það þá von og þá gleði, sem það þráir. Ég hitti blint fólk, sem fyrir Orð Guðs öðlast lífsþrótt. Það lærir til starfsgreina og er ekki lengur brottrækt úr þorpum sínum. Biblíur eða almanök með biblíuversum eru afar eftirsótt hjá indverskum fjölskyldum. Þess vegna ætti Heilög ritning að ná til enn fleira blinds fólks. Verið svo væn að biðja fyrir því að blint og sjónskert fólk styrkist fyrir Orð Guðs!“
Hvað er blindraletur (Braille)?
Samsetningar úr sex mismunandi punktum mynda allt stafrófið á viðkomandi tungumáli. Fingrum er rennt yfir punktana. Frakkinn Louis Braille fann upp þetta kerfi. Það varð nefnt eftir honum á erlendum tungumálum og er notað af blindu fólki víðs vegar um heiminn
Þorgils Hlynur Þorbergsson, þýddi