Líf Jesú einkenndist af kærleika. Hann mætti fólki í kærleika, læknaði sjúka, tók börn í faðm sinn og blessaði þau. Í Biblíunni fáum við að kynnast lífi Jesú og boðskap hans. Páskaboðskapurinn hljómaði í öllum kirkjum landsins um páskana. Boðskapurinn  um Jesú Krist, son Guðs, sem sigraði dauðann og gaf okkur þar með trú á hinn upprisna frelsara okkar Jesú Krist, sem leiðir okkur frá dauða til eilífs lífs með sér. Kristin trú er upprisutrú, trú á sigur lífsins yfir dauðanum. Jesús var krossfestur, lagður í gröf og sú gröf var tóm á páskadagsmorgun. Jesús var ekki þar, hann var upprisinn!

Biblían okkar sem geymir þetta fagnaðarerindi er sú bók sem hefur haft víðtækustu áhrif á trú, sögu, menningu fjölmargra þjóða um allan heim. Íslensk saga og menning er þar ekkert undanskilin. Listafólk úr öllum listageiranum hefur sótt hugmyndir og túlkað boðskap Biblíunnar í list sinni. Biblíufélagið var stofnað 10. júlí 1815 og er elsta félagið á Íslandi. Markmið félagsins er að stuðla að því að Biblían verði alltaf aðgengileg og fáanleg á Íslandi og hvetja fólk til lesturs Biblíunnar.  Íslendingar voru meðal 20 fyrstu þjóða heims sem fengu Biblíuna á eigin þjóðtungu. Það var menningarlegt afrek Odds Gottskálkssonar og Guðbrands Þorlákssonar og hafði ómetanlegt gildi fyrir okkur sem þjóð.

Á næsta ári verður Biblíufélagið 200 ára og félagið er eitt af elstu Biblíufélögum í heiminum. Þó að Biblíufélagið sé virt og gamalt félag er það síungt og vill vinna að því að nýjar kynslóðir hér á landi fái að kynnast Biblíunni sem hefur haft svona mikil áhrif á sögu okkar og menningu. Biblían miðlar kærleika og umhyggju Guðs og því hve miklu máli samfylgd við Hann skiptir í daglegu lífi. Með því að skrá sig í Biblíufélagið tökum við þátt í því verkefni að útbreiða Biblíuna, boðskap og áhrif hennar hér á Íslandi. Biblían er grundvöllur kristinnar trúar og okkar kristnu arfleifðar. Ef við viljum að hver ný kynslóð kynnist boðskap Biblíunnar, taki kristna trú og láti mótast af kristinni lífsýn og lífsgildum, þurfum við öll að taka höndum saman og stuðla að útbreiðslu Biblíunnar.

Páskarnir eru mesta hátíð kristinna manna. Kirkjufeðurnir nefndu páskana hátíð hátíðanna, festum festorum, því þá fögnum við upprisu Jesú Krists. Við fögnum hinu eilífa lífi sem hefst nú og varir um alla eilífð. Við fáum að taka við þeim boðskap og tileinka okkur hann í lífi okkar.

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, 2014.