Það er mikil eftirspurn eftir Biblíum á Kúbu og Sameinuðu Biblíufélögin hafa sett sér markmið að safna einni milljón af Biblíum fyrir lok ársins 2014. Mikill kirkjuvöxtur er á Kúbu og það er því mikil þörf eftir Biblíum. Það kostar um 500 íslenskar krónur að prenta eina Biblíu og koma henni til Kúbu. Kúba er stærsta og fjölmennasta eyja Karíbahafsins. Íbúarnir eru af mismunandi bergi brotnir, 60% af spænsku, 22% eru múlattar, 11% af afrísku og 1% kínversku.

Tökum þátt í að safna einni milljón af Biblíum fyrir Kúbu.

Bréf frá framkvæmdastjóra Hins íslenska Biblíufélags

Ágæta félagsfólk í Hinu íslenska biblíufélagi

Á Kúbu búa yfir ellefu milljónir íbúa. Þar eru 62 mismunandi kirkjusamfélög og biblíufélagið þar er í samstarfi við öll kirkjusamfélögin. Á Kúbu hefur fjöldi kristins fólks tvöfaldast á tíu árum. Aðstæðum þar er best lýst með þeim hætti, að kirkjurnar eru fullar af fólki, en Biblíurnar vantar. Öll dreifing á Biblíunni fer fram í gegnum Biblíufélagið á Kúbu, en það hefur því miður engin tök á því að útvega nógu margar Biblíur fyrir landsmenn.  Biblíufélagið er algjörlega háð því að kristið fólk í öðrum löndum borgi fyrir prentun og sendingu á Biblíum til Kúbu. Mörg biblíufélög taka nú þátt í því verkefni að senda Biblíur til Kúbu.

Félagsfólk í HÍB fær nú um mánaðarmótin valgreiðslu í heimabanka þar sem gefst tækifæri til að styðja við biblíufélagið á Kúbu. Munum að margt smátt gerir eitt stórt.

Með kærum kveðjum og þakklæti fyrir stuðninginn,

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri

Ef þú ert ekki félagsmaður í hinu íslenska biblíufélagi en hefur áhuga á að gerast félagi skaltu senda nafn þitt, heimilisfang og kennitölu á netfangið hib@biblian.is