Það getur verið erfitt að lesa Biblíuna. Þrátt fyrir að um 62% Dana eigi Biblíu, þá eru einungis 5% þeirra sem taka Biblíuna úr hillu einu sinni í mánuði til að lesa í henni. En nú hefur danska Biblíufélagið  gert nútíma fólki auðveldara að lesa ákveðna biblíutexta, t.d. um Adam og Evu, Nóa, Kain og Abel og fleiri. Þann 23. október verða gefnar út tvær bækur Gamla testamentisins, þ.e. fyrsta Mósebók og Prédikarinn, á nútímamáli, ný–dönsku, eins og þeir kalla það.
Tekin hafa verið í burtu orð sem erfitt er að skilja og margir hafa þurft sérstaka orðabók til að skilja textana til hlítar. Inn í hina nýju þýðingu eru komin orð og hugtök sem notuð eru í talmáli í Danmörku, jafnt hjá yngri sem eldri. Orðið „örk“, eins og í örkinni hans Nóa er nú orðið „bátur“ í nýju útgáfunni og orðasamband „að ákalla Guð“ er orðið „að biðja til Guðs“. Gömlu heitin á bókunum eru ekki lengur til staðar, nú heitir Fyrsta Mósebók „Upphafið“ og Prédikarinn hefur fengið nafnið „Hugsuðurinn“.

Mósebók og Prédikarinn á nútímamáli eru fyrstu bækur Gamla testamentinu sem gefnar eru út á talmáli en ætlunin er á næstu árum að halda áfram því verkefni með aðrar bækur GT. Framkvæmdastjóri danska Biblíufélagsins segir að með þessari útgáfu opnast Biblían fyrir nýjum lesendum.

„Ég vona að þessi nýja útgáfa Biblíunnar hvetji til lifandi samtals um tungumál Biblíunnar og frásögur hennar í nútímasamfélagi. Það er von okkar að fleiri lesi þessar klassísku frásögur sem eru hluti af okkar trúar- og menningararfi. Ég fyrir mitt leyti held að með því að fá Biblíutexta á nútímamáli geti það veitt Dönum nýja lestrarupplifun. Um leið getur fólk tekið afstöðu til frásagnanna sem svo margir frá liðnum tíma hafa sagt frá“ segir framkvæmdastjórinn.

Biblían með í strætó

Á annað ár hafa guðfræðingar, ritstjórar, rithöfundar, tungumálasérfræðingar og margir aðrir sérfræðingar brotið heilann um það hvernig eigi að þýða mörg þúsund ára texta á nútímamál og hvernig eigi að finna nútímaorð fyrir orð eins og náð, synd og blessun. Einn úr þessum hópi er rithöfundurinn og blaðamaðurinn Kristian Ditlev Jensen. Hann sér fyrir sér að Biblían á nútíma-dönsku geti orðið bók sem hæglega er hægt að taka fram í strætó eða í stól á þilfari skips.

„Biblían á ný-dönsku getur gefið nýja upplifun af lestri Biblíunnar vegna þess að hún er bók sem við þurfum ekki að festast í í skilningsleysi á orðum, hér er frásaga sem flýtur og er skiljanleg. Hún verður þannig auðveld aflestrar“ segir Kristian.

Einn af sérfræðingunum sem hefur tekið þátt í þýðingarvinnunni er leikstjóri og heitir Mette Wolf. Hún vonar einnig að Biblían á ný-dönsku verði sú bók sem fylgir fólki í daglegu lífi þess.

„Ég vona að fólk verði forvitið að lesa nýju útgáfuna og að hún tali beint til fólks. Nú þarf ekki lengur að sökkva sér niður í hvert orð sem ekki er hægt að finna skilning í. Sögurnar fá nýja mynd í nýju þýðingunni“ segir hún.

Árið 2007 kom út í Danmörku Nýja testamentið á nútíma dönsku. Á næstu árum, þegar allar bækur Gamla testamentisins hafa verið þýddar, verður öll Biblían aðgengileg á nútíma-dönsku.