Við Íslendingar erum ein þeirra þjóða sem höfum alist upp við að eiga Biblíuna alla á okkar móðurmáli. Víðsvegar um heiminn er hinsvegar fólk og þjóðabrot sem ekki býr svo vel. Margir þurfa að lesa Biblíuna á öðru tungumáli. Þegar Biblían hefur verið þýdd á móðurmál fólks, sem er vant því að lesa Biblíuna á öðru tungumáli, getur það breytt lífi þeirra. Að lesa orð Guðs á eigin móðurmáli snertir við fólki og það upplifir textana á annan hátt.

Í þessari viku höldum við upp á Alþjóðlega þýðingardaginn. Biblíufélög um allan heim hafa haft forgöngu um og leitt þýðingar á Biblíunni í yfir 200 ár.


Sameinuðu Biblíufélögin eru um þessar mundir að taka þátt í yfir 500 þýðingarverkefnum um heim allan. Á sumum stöðum er verið að þýða Biblíuna í fyrsta sinn yfir á viðkomandi tungumál og á öðrum stöðum er verið að endurþýða Biblíur og uppfæra þær. Þýðingarvinna af þessu tagi tekur langan tíma og koma margir að því verki. Við biðjum fyrir þessari vinnu og biðjum Guð að veita þeim sem taka þátt í þessari þýðingarvinnu leiðsögn og styrk.

Sameinuðu Biblíufélögin hafa í sínum röðum sérfræðinga sem veita ráðgjöf og styðja við þýðingarvinnuna. Þeir fara til viðkomandi landa og veita aðstoð og þjálfa fólk til þessarar mikilvægu þýðingarvinnu.

Árið 2013 gerðu Sameinuðu Biblíufélögin lista yfir 100 þýðingarverkefni sem stefnt var að að ljúka við fyrir árslok 2015. Af þessum verkefnum hefur 63 þegar verið lokið og 16 þeirra verið gefin út. Við hjá Hinu íslenska biblíufélagi vonumst til að markmið Sameinuðu Biblíufélaganna náist og að á endanum geti hvert mannsbarn lesið orð Guðs á sínu eigin móðurmáli, rétt eins og okkar eigin þjóð fékk árið 1584. Við hvetjum allt félagsfólk okkar til þess að vera með í bæn fyrir biblíufélögum um heim allan.

 

 30092014 PR