Óeirðirnar sem hófust í júlí á Gasa-svæðinu hafa kostað um 2000 mannslíf. Biblíufélög víða um heim hafa stutt við það starf sem þar hefur verið unnið sleitulaust með kirkjum og kristnum hjálparsamtökum, til aðstoðar þeim sem hafa misst heimili sín.
,Aðstæðurnar hjá þessu fólki eru hræðilegar og fólkið er örvæntingarfullt” segir Nashat Filmon, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins í Palestínu. ,,Kirkjurnar hafa opnað dyr sínar fyrir flóttafólki, m.a. hafa yfir 2000 manns fengið skjól hjá hinum ýmsu kirkjum m.a. grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Þörfin er mikil fyrir mat og vatn og allar aðstæður hinar verstu. Mörg barnanna eru sárþjáð, hafa sum orðið veik af að borða skemmdan mat. Þau kljást við augn- og húðsjúkdóma eða veikindi í þörmum vegna hins hörmulega ástands. Leitað hefur verið eftir hjálp til Jerúsalem og á Vesturbakkann og hefur margt fólk stutt starfið. Kirkjur og hjálparsamtök hafa látið í té mat, lyf, teppi eða létta svefnpoka og veitt læknishjálp. Reynt hefur verið að gefa börnum leikföng til að dreifa huga þeirra á þessum erfiðum tímum. Biðjið með okkur að kærleikur Guðs til fólksins á þessu svæði dvíni ekki; að trú, von og kærleikur megi vera leiðarljós okkar– og réttlæti, friður og sátt verði hafin til vegs. Biðjum þess að okkur, sem hér erum að starfi, auðnist að vera boðberar kærleikans, vera salt og ljós, að vinna saman að betri framtíð. Biðjið sérstaklega fyrir því að okkur auðnist að vera friðflytjendur, sýna ást og skilyrðislausa umhyggju, óháð öllum landamærum”.
19.09.2014