Á meðan ófriður ríkir í Miðausturlöndum semur Basim, sem er múslimi, nýtt lag um friðsamlega sambúð milli trúarhópa. Hann samdi lagið út frá boðorðunum tíu í Biblíunni. Basim er alinn upp í múslimskri fjölskyldu, fann innblástur í gyðinglegum texta og samdi lag fyrir Biblíufélag!

,,Þegar ósamkomulag og ófriður ríkir milli fylgismanna mismunandi trúarhópa er gott að minna á þau gildi sem við eigum sameiginleg, þrátt fyrir að við trúum ekki á það sama“  segir Melodi Grand Prix-stjarnan Basim, sem nýlega gaf út lagið „Count to ten“ í samstarfi við danska Biblíufélagið.

„Heimurinn logar og oft er það eins og við skiljum ekki hvert annað. En þrátt fyrir að við aðyllumst ólík trúarbrögð þá eigum við margt sameiginlegt. Innihald boðorðanna tíu eru orð sem finnast sambærileg í öllum trúarbrögðum vegna þess, að í grunninn fjalla þau um að sýna samkennd og koma vel fram hvert við annað“.

Lag Basims er eitt af þeim lögum sem samin hafa verið fyrir danska Biblíufélagið í tilefni af 200 ára afmæli félagsins. Félagið fékk tólf tónlistarmenn til að semja tónlist út frá tólf ritningarversum Biblíunnar. Í lagi sínu leggur Basim áherslu á það, að hvort sem við klæðumst slæðum múslima eða kollhúfum gyðinga, þá erum við innst inni ekki svo ólík.

„Lagið fjallar um, að það skiptir ekki máli hvar við búum, hvaða trú við aðhyllumst, við höfum öll lært að koma vel fram við náunga okkar. Viðlagið kom bara til mín því ég vissi hvað ég vildi segja; „Þeir kenndu okkur það sama“ sagði Basim í viðtali.

Hægt er að hlusta á brot úr laginu á http://www.bibelselskabet.dk/BrugBibelen/~/link.aspx?_id=06569F5B1715459EBCE324DFFFAC7826&_z=z