Davíðssálmur 8

 

Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.
Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefur þú gert þér vígi
til varnar gegn andstæðingum þínum,
til að stöðva fjandmenn og hefnigjarna.
Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna

tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri,
lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,
lagðir allt að fótum hans:
sauðfénað allan og uxa
og auk þess dýr merkurinnar,
fugla himins og fiska hafsins,
allt sem fer hafsins vegu.
Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.


Mér þykir gaman að fara í göngutúra. Ég veit ekkert betra en að ganga á fjöll, njóta þess að vera úti í náttúrunni, njóta kyrrðarinnar og finna friðinn sem fyllir huga og sál. Oft finn ég mig smáan í stórfenglegri náttúrufegurð, finn til smæðar minnar, eins og lítið sandkorn á stórri strönd. Mér þykir það vera forréttindi að fá að upplifa slíka náttúru eins og Ísland færir okkur.

Við Íslendingar eigum stórkostlega náttúru, hún er fjölbreytt og afskaplega falleg. Það skiptir því miklu máli að við förum vel með náttúruna, verndum hana eins og okkur hefur verið trúað fyrir. Við erum ráðsmenn Guðs hér á jörðu og okkur ber að fara vel með það sem okkur er falið.

Þegar ég sit uppi á fjallstindi og upplifi fegurð landsins okkar, hreina loftið og einstaka náttúrufegurð þá fyllist hjarta mitt þakklæti til Guðs. Lofgjörð til Guðs sem opinberar okkur sjálfan sig í sköpun sinni. Þá kemur oft í huga minn 8. Davíðssálmur sem hefst einmitt á orðunum ,,Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina“.  

Hafsteinn Kjartansson, kjötiðnaðarmaður