Í tilefni af 200 ára afmæli Biblíufélagsins í Danmörku er komið út nýtt lag með hljómsveitinni Nelson Can en hljómsveitina skipa María Juntunen á trommur, Signe Tobiassen á bassa og Selina Jin söngur. Þær hafa spilað saman frá árinu 2011 og gáfu út sinn fyrsta geisladisk í september.
Lagið sem þær sömdu sérstaklega fyrir Biblíufélagið er um hjálpsemi og vísar til sögunnar um Miskunnsama Samverjann en það er þekkt saga úr Biblíunni sem Jesús sagði þegar hann fjallaði um náungakærleikann. Í sögunni segir frá Samverja, sem hjálpaði ókunnugum manni sem varð fyrir barðinu á ræningjum. Lagið fjallar um að rétta hjálparhönd, bæði til sinna nánustu en einnig láta sig aðra varða, þrátt fyrir að um ókunnuga sé að ræða.
Hljómsveitin Nelson Can hefur ekki áður samið lag við trúarlegan texta en fannst það spennandi verkefni að kafa ofan í eina af innihaldsríkustu sögum Biblíunnar.,, Rauður þráður í gegnum Biblíuna er hvernig á að koma fram við aðra, náungakærleikurinn og það er auðvelt að samsama sig sögunni um Miskunnsama Samverjann“ segir bassaleikarinn og höfundur textans Signe Tobiassen.
Með því að kaupa lagið á heimasíðunni danska Biblíufélagsins styrkir Biblíufélagið þar Hiv- smituð börn í Swazilandi.
,,Það er mikilvægt fyrir okkur“ segir Signe ,, Það eru forréttindi að fá að gera það sem okkur finnst skemmtilegast- að semja tónlist- og samtímis að taka þátt í stuðningi og vonandi hafa góð áhrif á líf nokkurra barna“
Á slóðinni www.bibelselskabet.dk/lydspor er hægt að hlusta á lag hljómsveitarinnar.