Félagið vill einnig vekja athygli á því að Skálholtsútgáfan gefur út ýmsar bækur sem gagnlegar eru til þess að fræðast um efni Biblíunnar. Benda má áhugasömum á eftirfarandi bækur:
Cantica – lofsöngvar Biblíunnar. Í þessari bók er að finna lofsöngva úr Biblíunni, bæði úr Gamla- og Nýja testamentinu en einnig þrjá forna kirkjulega lofsöngva annars staðar frá. Allir eru þeir dýrmætur hluti af bænaarfi kristinnar kirkju. Þessir lofsöngvar styrkja bænalíf þeirra er hafa þá um hönd, opna nýja sýn og svala leitandi bænahuga nútímamannsins. Bókin er 70 bls. og kostar 1.390 kr.
Vegamót – Sporin tólf og Biblían. Bókin fjallar um það hvernig hægt er að byggja brýr á milli tólf spora leiðar AA samtakanna og kristinnar trúar í því skyni að styrkja trúað fólk sem sótt hefur hjálp og kraft til samtakanna. Höfundur rekur í stuttu máli sögu AA-samtakanna og ræðir síðan af þekkingu og reynslu um sporin tólf og varpar trúarlegu ljósi á þau. Bókin geymir reynslusögur fjölda fólks á bataleið í AA-samtökunum – sögur sem geta orðið öðrum góður styrkur þegar á móti blæs og sterk hvatning til trúar. Verð 2.690 kr.
Myndskreytt Biblía fyrir börn og fullorðna. Margir hafa áhuga á að lesa Biblíuna en eiga erfitt með að byrja eða þykir uppsetningin erfið. Í bókinni eru sögur Biblíunnar endursagðar á skýran og einfaldan hátt sem hentar bæði börnum og fullorðnum. Fjöldi mynda prýðir frásögnina og glæðir hana lífi. Sögurnar opna heim Gamla og Nýja testamentisins á þann hátt sem allir skilja og eftir lesturinn er söguþráður Biblíunnar orðinn lesandanum kunnur í aðalatriðum. Sögur Biblíunnar eiga sem fyrr fullt erindi til allra og eru gott veganesti í nútímanum. Verð 2.780 kr.
Leiðsögn um Nýja testamentið, eftir William Barclay í þýðingu sr. Hreins S. Hákonarsonar. Þessi bók er ætluð öllum þeim sem vilja kynna sér rit Nýja testamentisins. Bókin veitir fróðleik um hvert rit Nýja testamentisins, um tilurð þess og sögu. Hér er á ferð lipurt rit sem opnar heim Nýja testamentisins nánast á svipstundu en er þó traust í alla staði. Höfundurinn er kunnur fyrir greinargóð skrif um Nýja testamentið og hafa rit hans borið honum glæsilegt vitni og farið víða um heim. Rit William Barclays eru mjög við alþýðuskap. Bókin kostar 1.450 krónur.
Biblían frá grunni. Bókin opnar heim Biblíunnar fyrir lesendum á öllum aldri á nútímalegan hátt og þeir slást í ógleymanlega för með höfundi um gamla og nýja Testamentið.Bókin er 256 bls. og kostar kr. 1.980.
Í fótspor Jesú. Bókin er prýdd einstökum litmyndum sem gera kunnustu sögur Jesú ljóslifandi í hugum lesenda. Myndirnar sýna fjölmarga staði í landinu helga, einstakt landslag og auk þess ýmsa hluti sem Jesús hefur eflaust sjálfur séð á sínum tíma. Höfundurinn, Henry Wansbrough, er heimskunnur fyrirlesari og hefur m.a. fengist við útgáfu á Biblíunni. Þekking hans á landinu sem Jesús ólst upp í kemur glöggt fram í þessari bók sem og djúpur skilningur hans á guðspjöllunum. Verkefnabók til ljósritunar er fáanleg í Kirkjuhúsinu.
Bókin um Jesú. Í bókinni er ævi og starf meistarans frá Nasaret sett í sögulegt samhengi nútíma lesanda til glöggvunar. Fjöldi mynda og korta ásamt skýringum á ýmsum fornum siðum varpa ljósinu á margt forvitnilegt. Bók er ætluð fólki á öllum aldri. Í framsetningunni er lesandinn leiddur í gegnum sögu Jesú Krists og vekur hann til umhugsunar um þýðingu kristinnar trúar í nútímanum. Verð kr. 2.700.
Fimm mínútna Biblían. Ein eftirtektarverðasta bók um Biblíuna sem komið hefur út.
Hún gerir efni Biblíunnar aðgengilegt. Hún er ætluð ungu fólki en nýtist öllum aldurshópum.Í Noregi, Svíþjóð og í Finnlandi er hún víða notuð í fermingarfræðslu.
Efni bókarinnar er skipt niður í stutta kafla, ein blaðsíða fyrir hvern dag ársins. Biblíutexti og hugleiðing fylgir hverjum degi. Verð kr. 2.280.