Orðskviðirnir 3:5

Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

 

Þegar ég var yngri lærði ég að aðlagast nýjum aðstæðum margoft þar sem að foreldrar mínir voru kristniboðar. Börn sem hafa lifað utan upprunalandsins fyrir fullorðinsár sökum starfs foreldra hafa verið kölluð á ensku „Third Culture Kids“  og hefur það verið þýtt á marga vegu, á veraldarvefnum fann ég eftirfarandi þýðingar: bræðingsbörn eða hnattrænir flakkarar. Ég hef alltaf skilgreint mig sem kristniboðabarn. Ég veit að þekking mín og skilningur á heiminum er öðruvísi en hjá mörgum öðrum. Ég hef þurft að rækta með mér aðlögunarhæfni og hreyfanleika og um leið öðlast samkennd með öðrum og umburðarlyndi  og tel ég kostina hafa verið fleiri en gallana að hafa fengið að upplifa það að vera kristniboðabarn.

Ég trúi því að með hverju nýju skrefi sem ég hef tekið um ævina að þá hafi blessun Guðs fylgt með. Ég hef þurft að treysta Drottni í alls konar aðstæðum. Hann hefur blessað mig á svo marga vegu. Það getur verið gott að þurfa ekki að reiða á eigið hyggjuvit. Guð veit betur hvað okkur er fyrir bestu.

Guðrún Birna Guðlaugsdóttir, kennari