Gunnlaugur A. Jónsson prófessor skrifar þann 15. júlí á fésbókarsíðu sína:

Í dag 15. júlí eru 200 ár liðin frá því að sá mæti maður Ebenezer Henderson (1784-1858) kom til Íslands. Heimsókn hans markaði m.a. þau þáttaskil að Biblían varð í fyrsta skipti almenningseign á Íslandi. Ný útgáfa var prentuð í í Kaupmannahöfn í árslok 1813 og af henni dreifði Henderson yfir 4 þúsund eintökum og að auki um 6600 eintökum af Nýja testamentinu. Ári síðar 10. júlí 1815 stóð hann að stofnun Hins íslenska biblíufélags, sem er nú elsta starfandi félag í landinu og mun á næsta ári fagna 200 ára afmæli sínu með ýmsum viðburðum. Henderson var trúboði, tungumálasnillingur og í raun fjölfræðingur. T.d. mikill áhugamaður um jarðfræði og náttúrufræði eins og hin snilldarlega Ferðabók hans ber vitni um. Hún er mikilvæg heimild um íslenska jarðfræði og ekki síður þjóðhætti. Jafnframt veitir hún innsýn í hina miklu biblíuþekkingu þessa skoska trúboða því stöðugt er hann að bera saman það sem fyrir augu ber á Íslandi við biblíutexta sem hann hefur á hraðbergi. Þar kemur líka fram hve fólk var þakklátt fyrir að eiga þess kost að eignast Biblíu og raunar fengu færri en vildu svo mikil var eftirspurnin.