„Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn.“ (1.Jóh. 3:1-3)

Þau eru svo mörg uppáhalds versin en þessi staður, upphaf þriðja kafla Fyrsta Jóhannesarbréfs, er mér alltaf afar kær. Ástæða þess er sú að þarna er ég minntur á það að ég er líka, þrátt fyrir allt og allt, barn Guðs. Og ég er líka minntur á að sú staðreynd að ég er Guðs barn er vegna kærleika Guðs, enda um það fullvissaður í þessu bréfi Jóhannesar að Guð sé kærleikur. Hvorki meira né minna. Sem er stórkostlegt!

                Síðan er líka í þessum orðum svo dásamlegt loforð, loforð til handa mér, syndugum og vanmáttugum. Það er loforðið um það sem verða mun. Og ég er þar til viðbótar sannfærður um, í þessum orðum, að bara von mín um hinn sigrandi Krist sé nóg, í hans augum, til þess að ég fái nú þegar og til allrar eilífðar að vera hans; að vera Guðs barn. Það er ekki lítið!

                Þar á ofan er það loforðið um að ég muni fá að mæta Guði og sjá hann eins og hann er. Kannski finnst einhverjum það vera hrein og klár ómerkileg forvitni, en mér er það loforð um dýrð og um eilíft líf. Sem er líknandi mér, eins og ég er – bara breyskur maður!

                Þessi orð sem ég valdi líkt og kalla til mín í hvert sinn sem ég les þau. Þau kalla til mín að ofan en eru samt svo hrein og bein og svo mannleg og í raun svo látlaus í lofandi dýrð sinni.

 

Guðmundur S. Brynjólfsson

rithöfundur og djákni