Hún hefur verið kölluð „frumkraftur Norðursins“ og vakið hrifningu gagnrýnenda um öll Norðurlönd. Þessa dagana kemur út splunkunýtt lag, You know me, frá færeysku söngkonunni Eyvöru, samið út frá biblíutexta.
Með tilkomu lagsins You know me styrkjast tengslin á milli
Danmerkur, Færeyja og Íslands. Hin færeyska Eyvör Pálsdóttir sem hefur verið búsett á Íslandi í mörg ár þáði boð um að túlka texta úr Biblíunni í tilefni af 200 ára afmæli Hins danska biblíufélags.
Lagið You know me er skrifað út frá 139 sálmi, versi 1-18, Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. Textinn er saminn með sterkum tilvísunum í eigið líf söngkonunnar.
,,Textinn er margslunginn og snertir tengsl okkar við Guð en líka kærleikann á milli tveggja einstaklinga; þennan mikla kærleika sem getur rúmað alla bresti“ segir Eyvör. „Ég þekki mitt eigið líf í textanum. Við eigum öll okkar veikleika sem við viljum helst fela, en skyndilega hittum við einhvern sem sér í gegnum grímuna.“
You know me er eitt af 12 lögum sem verða kynnt í afmælisverkefni Hins danska biblíufélags sem kallast Hljóðspor frá Biblíunni. Á árinu 2014 munu 12 tónlistarmenn semja lag við biblíutexta. Tónlistarfólkið hefur frjálsar hendur í vinnunni með textana.
,,Gildi biblíutexta er eilíft og þeir eiga sannarlega erindi inn í hversdag okkar nútímafólks. Þess vegna er svo mikilvægt að endursegja og túlka textana. Aðalatriðið, finnst okkur, er að tryggja að Biblían nái til sem flestra og að unga fólkið átti sig á að Biblían er líka fyrir þau“ segir framkvæmdarstjóri Hins danska biblíufélags, Morten Thomsen Højsgaard.
Lagið hennar Eivarar er að finna á heimasíðu danska biblíufélagsins, www.bibelselskabet.dk/lydspor, og verður það ókeypis í einn mánuð eftir útgáfuna. Þá er hægt að kaupa lagið á iTunes og á öðrum tónlistarveitum. Í nóvember verða öll 12 lögin sett saman á geisladisk. Allur hagnaður af verkefninu mun renna til HIV smitaðra barna í Svasílandi í Afríku.
Danska biblíufélagið veitir Hinu íslenska biblíufélagi fjárstuðning á næstu árum sem vonandi verður til þess að hvetja fleiri Íslendinga til að lesa Biblíuna.
Lesið meira og skoðið fréttaljósmyndir á www.BIBELSELSKABET.DK/LYDSPOR og www.BIBELSELSKABET.DK/200/PRESSE.