Biðjum fyrir kristnu flóttafólki!
Heimsbiblíuhjálp Hins þýska biblíufélags biður fólk að biðja fyrir kristnu fólki í Írak, sem flýr stjórnmálaástandið á sjálfsstjórnarsvæðinu Kúrdistan í norðurhluta landsins. Öðrum flóttamönnum er borgið í Jórdaníu. Framganga hryðjuverkahópsins „Íslamska ríkisins“ (IS) í Írak herðir enn frekar spennuþrungnar aðstæður flóttamannanna á svæðinu. „Fólkið, sem kemur til okkar, er í skelfilegu áfalli og hefur misst allt,“ segir leiðtogi hóps innan Sameinuðu biblíufélaganna á staðnum.

„Umhyggja og kærleikur hjálparstarfsfólks hafa borið okkur uppi“

Abu Ahmed bjó í þorpinu Hems í Írak þegar hann missti tvítuga dóttur sína. Í óvæntri árás IS-hryðjuverkahópsins lenti sprengja í einu herbergja heimilis hans og gjöreyðilagði það.  Ein dætra hans var stödd þar og lést hún samstundis. Þorpið, þar sem hann hafði fæðst og alist upp, var ekki öruggt lengur.

Þann sama dag  flúði hann ásamt eiginkonu sinni og sex eftirlifandi börnum til annars þorps í þeirri von, að þeim stafaði ekki hætta af neinni ógn.  Skömmu síðar komst hópur vopnaðra manna einnig til þess þorps. Sonur hans, Ibrahim, slasaðist í þeirri árás þannig að hann varð blindur á öðru auganu. Hinn son sinn, Mohammad, þurftu þau að skilja eftir, því að þau töldu hann dauðvona af völdum sára sinna. Þau flúðu og komust þau yfir landamærin til Jórdaníu, þar sem þeim var borgið.

Sjálfboðaliðar Hins jórdaníska biblíufélags útbjuggu vistir og bráðabirgðahæli handa honum og fjölskyldu hans. Hjálparstarfsmennirnir sinntu sálgæslu og báðu reglulega með fjölskyldunni. Nokkrum mánuðum síðar barst þeim óvænt frétt: Sá sonur þeirra, sem þau töldu vera látinn, var á lífi! „Við vorum frá okkur numin af gleði,“ segir Abu Ahmed. „Við höfum verið borin uppi af umhyggju og kærleika hjálparstarfsmannanna, þegar við efuðumst. Þannig höfum við skynjað nærveru Guðs.“

Hjálp í Kúrdistan

Margt fólk var rekið frá heimilum sínum af vígamönnum Íslamska ríkisins (IS) og neytt til þess að skilja eigur sínar eftir. Á meðal þess er sérstaklega mikill fjöldi kristinna manna: Samkvæmt fréttum frá fjölmiðlum hefur það gerst í fyrsta sinn í 1400 ár, að ekkert kristið fólk er lengur að finna í írösku milljónaborginni Mósúl. Tugþúsundir manna eru á flótta, þjakaðar af gríðarlegum hita, allt að 50°C í skugga. Kúrdísk yfirvöld geta ekki lengur annast flóttamenn frá öðrum löndum án utanaðkomandi hjálpar.

Hjálparstarfsfólk Sameinuðu biblíufélaganna lætur sig sérstaklega varða hinn kristna minnihlutahóp á meðal þeirra. Flóttafjölskyldurnar fá hjálparböggla með næringu, lyfjum og sáraumbúðum. Þar að auki fylgir barnabiblía og Biblía hana fullorðna fólkinu með handa fjölskyldunum. „Þetta er fólkinu afar mikilvægt, að við upplifum, mitt í þessari ytri neyð, að þau öðlist huggun og kraft í gegnum texta Biblíunnar,“ segir leiðtogi hópsins.

Fimm manna fjölskylda getur fengið vikubirgðir af mat fyrir andvirði 25 evra.  Hjálparstarfsmennirnir vilja aðstoða samtals 3.000 fjölskyldur, um það bil 15.000 manns. Til þess að það markmið náist munu Sameinuðu Biblíufélögin leggja sitt af mörkum og styðja fjárhagslega við þetta verkefni.

Þorgils Hlynur Þorbergsson, þýddi