Davíðssálmur 37.5

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Allt frá unglingsárum hefur þetta vers verið mér kært og ég reynt að hafa það að leiðarljósi í lífinu.

Oftast hefur það verið auðvelt, en á stundum þegar ég hef þurft að taka stórar ákvarðanir eða breytingar staðið fyrir dyrum hefur það verið erfiðara.

Ég hef þá beðið heitt fyrir því að hlutirnir falli nú í þann farveg sem ég vil, allt fari á þann veg sem mig langar helst. Áhyggjurnar yfir útkomunni og áreynslan við að láta nú allt falla í „réttan“ farveg hefur oftar en ekki haldið fyrir mér vöku.

En þegar ég hef náð því að fela Drottni ákvarðanir mínar og framtíð alla og treysta honum fyrir því hefur mér á allan hátt liðið betur.

Oftar en ekki hafa málin farið á annan veg en þann sem ég sá fyrir mér. Ég hef þá orðið fyrir vonbrigðum og jafnvel stundum fundist Guð hafa brugðist mér. En að lokum hef ég séð að sannarlega vissi Guð betur og leiddi málin í þann farveg að það varð mér til blessunar og jafnvel öðrum líka.

En það er ekki bara í niðurstöðunni sem ég hef fundið handleiðslu Guðs, heldur ekki síður í ferlinu sem á undan fer. Ég hef upplifað léttinn sem því fylgir að sleppa tökum og fela Guði í einlægni og trú það sem framundan er. Þá hefur mér líka auðnast að njóta alls þess annars sem er að gerast í lífi mínu og umhverfis mig, hluta sem ég get ekki notið ef ég er með allan hugann við að stjórna ferðinni sjálf.

 

Guðrún Eggertsdóttir, sjúkrahúsprestur