Sjö íslensk tónskáld hafa samið orgelverk út frá frásögum í Biblíunni þar sem vængir koma við sögu. Samtals eru þetta 70 mínútur af nýrri íslenskri orgeltónlist sem verður frumflutt í Hallgrímskirkju sunnudaginn 1. júní kl. 17. Þá kemur út geisladiskur og nótnabók með tónlistinni.

Verkefnið hefur yfirskriftina Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra. Það er sótt í spádómsbók Esekíels þar sem segir:

Hvassviðri kom úr norðri, mikið ský og eldglæringar. Um það lék ljómi og úr honum miðjum leiftraði sem af hvítagulli. Úr ljómanum miðjum birtust fjórar lifandi verur. Á þeim var mannsmynd en hver þeirra hafði fjögur andlit og fjóra vængi. Þegar verurnar hreyfðu sig heyrði ég þytinn frá vængjum þeirra. Hann líktist nið mikilla vatna, þrumuraust Hins almáttka, háum hrópum og gný frá herbúðum. En þegar þær námu staðar létu þær vængina síga. (Esk 1.4-6 og 1.24)

Lára Bryndís Eggertsdóttir er hugmyndasmiðurinn á bak við tónlistarverkefnið. Í leit sinni að nýrri íslenskri orgeltónlist sem hentaði til notkunar við helgihald fannst henni afraksturinn ekki í samræmi við þann fjölda frábærra tónskálda sem landið hefur alið af sér. Lára Bryndís fékk því sjö íslensk tónskáld í lið með sér og uppskar túlkun þeirra á ýmsum frásögnum í Biblíunni þar sem vængir koma við sögu. Englar, kerúbar, fuglar og jafnvel drekar leika stórt hlutverk í biblíutilvitnunum sem tónskáldin fengu til innblásturs, og einnig voru þeim settar ákveðnar skorður um lengd hvers kafla. Hugmyndin var að hvert orgelverk skyldi samanstanda af tveimur til fjórum köflum, sem hver fyrir sig hentaði til notkunar við helgihald, en er þeir stæðu saman mynduðu þeir heildstætt verk sem færi vel á að leika á tónleikum.

Tónskáldin sjö eru Bára Grímsdóttir, Gísli Jóhann Grétarsson, Hafsteinn Þórólfsson, Hildigunnur Rúnarsdóttir, Michael Jón Clarke, Stefán Arason og Þóra Marteinsdóttir.

Sunnudaginn 1. júní verða nýju orgelverkin frumflutt – ekki aðeins á tónleikum Láru Bryndísar í Hallgrímskirkju kl. 17 heldur taka fjölmargir organistar þátt í ”vængjaþytnum” og leika nýju orgelverkin við messu í kirkjum sínum á þessum degi, m.a. í Hallgrímskirkju, Dómkirkjunni, Háteigskirkju, Víðistaðakirkju og fleiri kirkjum á höfuðborgarsvæðinu, Akraneskirkju, Akureyrarkirkju, Hafnarkirkju og Víkurkirkju. Á tónleikunum les frú Vigdís Finnbogadóttir ritningartexta sem tilheyra hverjum kafla. Sjá frétt á kirkjan.is