Í Filippíbréfinu 4.kafla, 4.-5. versi stendur:

,,Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd „

 

Það er ástæða fyrir því hvers vegna þetta vers hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Fyrir mér er það ótrúlega dýrmætt og mikilvægt að vita, að Guð hvetur okkur til þess að vera glöð. Gleðin er merkilegt fyrirbæri, hún er bráðsmitandi og í senn læknandi. Jafnframt er hún er sterkt vopn gegn neikvæðni, niðurrifi og vanlíðan. Þetta veit Guð okkar á himnum, enda er talað um gleðina og mikilvægi hennar á fjölda mörgum stöðum í Biblíunni.

Seinni hluti versins er einnig innihaldsríkur, en þar erum við hvött til þess að sýna ljúflyndi. Á lífsleiðinni mætum við ótal manneskjum og flestar þeirra ganga í gegnum erfiðleika sem við vitum sjaldnast af. Það á því aldrei að spara ljúflyndið og náungakærleikann. Heimspekingurinn Philo frá Alexandríu orðaði þetta svona“Be kinder than necessary for everyone you meet is fighting some kind of battle“.

Að lokum má nefna að síðasta setningin í versinu veitir okkur þá von að einn daginn fáum við loks að hitta Guð og upplifa alla hans dýrð. En þangað til erum við erindrekar hans hér á jörðinni og mætum því náunganum með gleði, kærleika og ljúflyndi – enda verður líf okkur miklu innihaldsríkara í kjölfarið.

Perla Magnúsdóttir,

Ferðamálafræðingur í hópadeild hjá Nordic Visitor.