Við fjölskyldan störfuðum við kristniboð í Eþíópíu í fimm ár. Það var bæði gefandi, þroskandi og skemmtilegt en líka oft erfitt og krefjandi en fyrst og fremst kenndi það mér að treysta Guði algjörlega í einu og öllu. Síðustu tvö árin okkar í Eþíópíu bjuggum við mjög afskekkt, í litlu þorpi í suð- vestur Eþíópíu sem heitir Gisma. Gisma er í Voítódalnum þar sem hitinn er á bilinu 38- 45 °C allan ársins hring. Þarna er þurrt og oft bregst regnið. Við vorum eina hvíta jölskyldan á staðnum en þarna leið okkur vel. Fyrstu vikuna voru börnin í Gisma forvitin og fannst skrítið að sjá þessi hvítu ljóshærðu börn en fljótt tók enginn eftir að þau væru öðruvísi á litinn.  Ég hef sjaldan fundið mig  jafnvel heima í nokkurri kirkju eins og í litlu kirkjunni okkar með bárujárnsþakinu í Gisma, þótt oftast hafi ég ekki skilið orð af því sem fram fór, ég fann bara nærveru Guðs og eininguna meðal systkina minna í þessum litla söfnuði.  En lífið þarna var samt sem áður oft krefjandi. Um tíma vorum við símasambandslaus, við vorum ísskápslaus í hálft ár á heitasta tímanum, yngsti sonur okkar var oft og mikið veikur, nærðist illa og hætti um tíma að stækka. Í svoleiðis aðstæðum er ekkert annað hægt en að leggja allt traust á Hann sem sendi okkur af stað og Hann notaði fjöllin, háu og tignarlegu fjöllin sem umlykja Voítódalinn til að minna okkur á sig á hverjum degi.

„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni skapara himins og jarðar“

Ég horfði oft upp til fjallana á erfiðum dögum og hugsaði um þennan 121. Sálm Davíðs og vissi og trúði að sá sem skapaði þessa fallegu náttúru væri með okkur og bæri okkur uppi og það gerði Hann sannarlega.  Í annríkinu hér í Reykjavík þar sem varla sést til fjalla fyrir háhýsum, þar sem ég þarf aðeins að skrúfa frá krana til að fá kalt vatn, þar sem ég þarf bara að lyfta upp  símtólinu og kanski keyra í fimm mínútur með börnin mín til læknis ef þau verða veik, þar sem ég get keypt allt sem mig vantar í næstu búð er auðvelt að gleyma á hvern best er að leggja allt sitt traust. Þá finnst mér gott að hugsa um fjöllin í Voító og þann tíma þegar ég hrópaði til Drottins um hjálp og finna að Hann er líka nálægur hér og ég þarf ekki síður á styrk Hans og hjálp að halda í annríkinu og amstrinu hér.

 

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir   

Kristniboði, söngkona og tónmenntakennari