Nú er verið að sýna kvikmyndina Örkin hans Nóa í kvikmyndahúsum landsins. Sitt sýnist hverjum um þessa mynd. En kvikmyndin getur hvatt okkur til að lesa söguna um Örkina hans Nóa í fyrstu Mósebók. Í Biblíunni lesum við lýsingar á því hvernig örkin átti að líta út, úr hvaða efni hún ætti að vera og hve stór hún ætti að vera.

 ,, 14En þú skalt gera þér örk af góferviði. Hafðu vistarverur í örkinni og bikaðu hana utan og innan. 15Þannig skaltu smíða hana: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir. 16Settu þekju á örkina og hafðu alin milli hennar og hliða arkarinnar. Þú skalt setja dyrnar á hlið hennar og hafa þrjú þilför, neðst, í miðju og efst“

Í Morgunblaðinu 3.apríl kemur fram að samkvæmt erlendum rannsóknum hefði örkin geta flotið eins og henni er lýst í Biblíunni. Rannsóknin var gerð við háskólann í Leicester og útreikningar sýndu fram á að Örkin hefði þolað þunga 70 þúsund dýra án þess að sökkva. Lengd skipsins var um 300 álnir og rannsóknarmenn reiknuðu út að Örkin hefði verið um 144 metra löng. Stærstu skip Eimskipa eru sambærilega stór en samkvæmt mælingum er áætlað að Örkin hafi verið um 14.000  brúttótonn, aðeins minni en stærstu skip Eimskipa.

Leikstjóri kvikmyndarinnar um Örkina hans Nóa er Darren Aronofsky en kvikmyndin er að mestu tekin upp á Íslandi. Leikstjórinn var yfir sig hrifinn af landi og þjóð en þrátt fyrir að gagnrýnendur gefi kvikmyndinni misjafna dóma, bæði hvað varðar tækni og efni myndarinnar, þá eru þeir flestir sammála um að náttúra landsins okkar komi einstaklega fallega út á hvíta tjaldinu.

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, 2014