Þessi dálkur birtir þanka fólks út frá völdum ritningartextum í Biblíunni.

“Þetta hef ég talað við ykkur, svo þið eigið frið í mér. Í heiminum hafið þið þrenging, en verið hughraust því ég hef sigrað heiminn” ( Jóh. 16:33)

Í heiminum, upplifum við þrengingar og erfiðleika af ýmsu tagi, við vitum að það er einfaldlega hluti af lífinu hér á jörðu. Hjá flestum okkar er kannski ekki um að ræða þrengingar í formi ofsókna, eins og sumir þurfa að líða, en á vegferð okkar í gegnum lífið mæta okkur bæði erfiðleikar og átök. Þetta þekkja allir.

En Kristur, frelsari manna, kom hingað til jarðarinnar til að deyja fyrir okkur öll og með dauða sínum á krossi og síðan upprisukrafti, sigraði hann heiminn! Það er það, sem hann vill segja okkur í þessu versi. Við eigum aðgengi að honum þegar, þrengingar og erfiðleikar steðja að. Hann á sigurkraft í öllum kringumstæðum og það er okkar hughreysting, því þennan sigurkraft vill hann gefa í líf okkar.

Ef við leggjum líf okkar í hans hendur og treystum honum, þá gefur hann hjálp til að takast á við erfiðleikana og við getum komist í gegn um slík tímabil lífsins án þess bugast algjörlega. Hann gefur trú, von og frið.

Þessi orð Krists hafa oft verið mér mikil huggun og styrkur í átökum lífsins og það sama getur gilt fyrir þig. Mundu þessi orð Jesú þegar þú mætir erfiðleikum.

Guð er trúfastur, Hans orð er sannleikur, vegir hans eru áreiðanlegir og kærleikur hans til okkar óendanlegur. Verið hughraust.

Árný Jóhanns.

Dagskrárgerðamaður og þýðandi