Heimsóknarvinir í Húnaþingi vestra

„Þér vitjuðuð mín“ (Matt; 25:36) eru einkunnaorð okkar heimsóknarvina í Breiðabólstaðar-og Melstaðarprestaköllum í Húnaþingi vestra.

Það var árið 2010 að prestarnir og djákninn ákváðu að koma á skipulagðri, sjálfboðinni heimsóknarþjónustu kirkjunnar til eldra fólks í Húnaþingi vestra, einkum til þeirra sem bjuggu einir og komust ekki auðveldlega að heiman.

Undirbúningur gekk vel, við fengum Ragnheiði Sverrisdóttur, djákna á Biskupsstofu, til að halda námskeið (sem urðu reyndar tvö, 2010 og 2012) fyrir heimsóknarvini og voru þau vel sótt. Þátttakendur voru mjög áhugasamir og fengu góða tilsögn um hvernig bera skyldi sig að í heimsóknunum, en fylgja þarf ákveðnum reglum, m.a. hve tíðar heimsóknir eru og hvert hlutverk heimsóknarvina er. Lögð er mikil áhersla á virðingu fyrir húsráðanda, sem er hugtak fyrir þann sem heimsóttur er. Enn fremur að rjúfa einangrun og efla lífsgæði.

Hér er um að ræða kærleiksþjónustu sem trú í verki og byggð á fyrirmynd Jesú Krists. Hann leit á sig sem þjón og var reiðubúinn til að vera það til hinstu stundar. Hann boðaði að við skyldum elska náunga okka og sýna þann kærleika í verki með því að láta líðan meðbræðra okkar og systra varða. Okkur ber, sem kristnum einstaklingum að fara að fordæmi hans.

Hinn biblíulegi bakgrunnur er Gullna reglan. „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera“. (Matt;7:12)

Í kærleiksþjónustunni eigum við því að mæta manneskunni þar sem hún er stödd, vera opin fyrir fólki í öllum aðstæðum lífsins.

Heimsóknin byggist m.a. á spjalli, aðstoð við bréfaskriftir, að drekka saman kaffisopa, upplestri og bæn ef húsráðandi óskar þess. Enn fremur er boðið upp á stuðning í gönguferðum við hæfi. Að sjálfsögðu er lögð áhersla á þagnarskyldu.

Við höfum fundið fyrir ánægju og þakklæti hjá húsráðendum og aðstandendum þeirra og er það okkur öllum mikils virði. Við finnum okkur ætíð sem aufúsugesti á heimilum húsráðenda.

Heimsóknarvinir hittast reglulega einu sinni í mánuði yfir veturinn og fara yfir starfsemina, þar sem hver og einn fær tækifæri til að tjá sig og lýkur þessum stundum ætíð bænastund í kirkjunni.

Í lok vetrarstarfsins gerum við okkur dagamun, t.d. með heimsóknum í önnur prestaköll og með því m.a. að fá áhugaverða fyrirlesara og heyra í öðrum í svipuðum aðstæðum.

Guð blessi og verndi heimsóknarþjónustuna og alla þá sem að henni koma og njóta.

Borðeyri, 2014 

Kristín Árnadóttir,

djákni Húnavatns-og Skagafjarðarprófastsdæmis