Davíðssálmur 121

Ég hef augu mín tilfjallanna: „Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himinsog jarðar.“ (Sálm.121:1-2)


Við erum svo blessaðir Íslendingar að búa í hreinu og fögru landi, þar sem mengun er í lágmarki og landslag svo stórbrotið að fegurð þess er engu lík. Hverjum finnst ekki gott að sækja Ísland heim og njóta kyrrðar úti í náttúrunni, láta hugann reika og hefja augun til fjallanna? Þegar stórkostleg sköpun Guðs er skoðuð og hennar notið og maður finnur sig svo lítinn og smáan, þá er ekki úr vegi að spyrja: Hvaðan kemur mér hjálp?

Undanfarin níu sumur hef ég verið svo lánsamur að vera beðinn að gegna starfi forstöðumanns í sumarbúðunum í Vatnaskógi, nokkrar vikur í senn. Í Vatnaskógi er náttúrufegurðin mikil. Um það geta þeir fjölmörgu vitnað sem þar hafa dvalið. Það gengur jafnan mikið á í hópi um eitt hundrað fjörugra drengja og getur þá skarkalinn og ærslin orðið mikil. Að loknum löngum dögum hef ég oft farið út í skóginn og hafið augu mín til fjallanna, sem þar eru allt umhverfis og spurt mig: Hvaðan kemur mér hjálp?

Svarið virðist svo nálægt og svo sjálfsagt, ekki síst úti í náttúrunni þar sem ég fæ notið sköpunar Guðs og kyrrðar. Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Það fylgir okkur mannanna börnum að geta orðið hrædd, kvíðin og áhyggjufull. Við verðum fyrir vonbrigðum, vinir bregðast. Öll þörfnumst við einhvern tíma huggunar, ástúðar og væntumþykju. Við þráum að gleðjast, vera viðurkennd og uppörvuð.

Þegar svona stendur á og í ótal mörgum tilfellum öðrum þá er engu líkt að vita til þess og fá að hvíla í því að hjálpina, uppörvunina, huggunina og viskuna er að fá hjá Drottni, skapara himins og jarðar. Til hans er gott að koma og til hans má ég alltaf leita. Ég má leita til þess Jesú sem sagði: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ Ég má leita daglega til sjálfs frelsarans Jesús sem segir: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar

Já, það er gott að vita til þess að jafnvel ég, syndugur og ófullkominn, sem geri og hugsa daglega svo margt rangt og illt, að ég megi koma til frelsarans Jesú með öll mín mál, með allt sem á mér hvílir.
Ég bið hann daglega að leiða mig og taka mig að sér, en það er ekki alltaf auðvelt, en mig langar að leita hælis hjá honum, því að ég veit að hjá honum og engum öðrum er mér borgið. Hjá honum er sannan frið og hvíld að fá. Og ég má kallast barnið hans. Ekki af því að ég hef alltaf allt á þurru eða hreinu, sé svo pottþéttur og lýtalaus. Nei, það er vegna þess að hann er svo hreinn og sannur. Það er vegna þess að hann Jesús Kristur, Guðs sonur, hefur tekið á sig allar mínar syndir og misgjörðir. Þess vegna má ég koma til hans, fá fyrirgefningu synda minna, vera barnið hans. Ekki af því að ég er svo trúr og sannur við hann heldur vegna þess að hann er svo trúr, umburðarlyndur, fullur samúðar, samstöðu og fyrirgefningar við mig. Ég má varpa áhyggjum mínum á hann,hann ber umhyggju fyrir mér. Jesús Kristur, Guðs sonur, sem hefur sigrað allt hið illa og jafnvel sjálfan dauðann, býður mér að koma í opinn faðminn sinn í mínum veika, ófullkomna og vantrúaða mætti og hann vill gefa mér allt með sér, gera mig að þátttakanda í lífinu sem hann hefur unnið fyrir mig og mun vara að eilífu.
Ég ítreka að ég má tilheyra honum, kallast hans barn, ekki vegna trúmennsku minnar eða verka heldur vegna hans algjöru náðar.

Guð er trúr og sannur við okkur sköpun sína, hann hefur vitjað okkar í frelsaranum Kristi og býður okkur að setjast við fótskör sína, koma í sinn opna og örugga náðar faðm. Hann elskar okkur mennina svo óendanlega mikið að hann vill gefa okkur allt með sér, þar með lífið sjálft, sem mun vara að eilífu.

„Af náð eruð þér hólpnir orðnir. Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið okkur stað í himinhæðum með honum. Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkidóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú. Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.“(Ef. 2:5­9).

Það er gott að mega koma til Jesú hvern dag til að fela honum daginn, sig og sína og lífið allt. Gerum við okkur grein fyrir því að hann rétlætir okkur án verðskuldunar vegna náðar sinnar fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.

Hann fyllir hjörtu okkar sínum óútskýranlega friði og blessi lífið okkar. Hann fylli okkur þeim friði, sem enginn getur gefið nema hann einn.

Njótum kyrrðar í fallegri og friðsælli náttúru Íslands, já eða bara hvar sem er og hefjum augu okkar til fjallanna og spyrjum: Hvaðan kemur mér hjálp?

Góður Guð ljúki orði sínu upp fyrir okkur og gefi okkur að skynja og meðtaka að hjálpina er að finna hjá Drottni skapara himins og jarðar og engum öðrum.

Guði einum sé þökk, mátturinn og dýrðin að eilífu.

 

Sigurbjörn Þorkelsson, rithöfundur