Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 51 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Áhrifasaga Biblíunnar og viðtökurannsóknir hennar eiga sívaxandi vinsældum að fagna í biblíufræðum eftir að hafa lengst af verið furðulega vanræktar á því fræðasviði. Í þessari málstofu verður fjallað um áhrif, notkun og túlkun Biblíunnar í ólíkum listgreinum nútímans.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Gunnar J. Gunnarsson, dósent á Menntavísindasviði: Bono og Davíð – Áhrif Davíðssálma á texta hljómsveitarinnar U2
  • Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild: „Lofið hann með hörpu og gígju.“ 150. Davíðssálmur í þremur ólíkum listgreinum
  • Haraldur Hreinsson, doktorsnemi: Patmos í norðri. Opinberunarbókin í meðförum Sjóns, Eiríks Arnar Norðdahl og Hugleiks Dagssonar

Málstofustjóri: Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags

Útdrættir:

Gunnar J. Gunnarsson, dósent  á Mennvísindasviði: Bono og Davíð – Áhrif Davíðssálma á texta hljómsveitarinnar U2

Þekkt er að í textum írsku rokkhljómsveitarinnar U2 er mikið af trúarstefjum og trúarlegum vísunum. Bono eða Paul David Hewson, söngvari hljómsveitarinnar, er höfundur flestra textanna og hann hefur í viðtölum tjáð sig um áhrif kristinnar trúar á líf sitt og mótun. Davíð og sálmarnir, sem við hann eru kenndir í Biblíunni, virðast í sérstöku uppáhaldi hjá honum og hann talar meðal annars um Davíð sem Elvis Biblíunnar. Í þessu erindi verða áhrif Davíðssálma á kveðskap Bono‘s skoðuð og leitað svara við því hvers vegna og með hvaða hætti svo fornir sálmar hafa áhrif á texta rokkstjörnu og réttindabaráttumanns í nútímanum.

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild: „Lofið hann með hörpu og gígju.“ 150. Davíðssálmur í þremur ólíkum listgreinum

Sálmur 150 er kröftugur endir á sálmasafni Gamla testamentisins (Saltarans), hápunktur á langri vegferð sem hófst á hvatningu um að íhuga Guðs orð (Slm 1.2). Sálmurinn virðist sannarlega viðeigandi endir á sálmsafni þar sem hafa skipst á skin og skúrir, dalir og hálsar, sigrar og ósigrar, gleði og sorgir. Allt virðist stefna að lofgjörðinni til Guðs sem birtist með svo skýrum hætti í lokasálminum. En sálmurinn er samt ekki endir allrar þróunar sálmasafnsins  því að einstakir sálmar hafa lifað sínu framhaldslífi í menningunni, í bókmenntum og fleiri listgreinum. Hér verður sjónum beint að slíku framhaldslífi Slm 150 eða áhrifasögu hans.  Sýnt verður hvernig hann hefur verið túlkaður og heimfærður í þremur ólíkum listgreinum: Kvikmyndalist (Kvikmynd Robert Duvalls, The Apostle), ljóðlist (sálmur sr. Valdimars Briem) og myndlist (Chagall og Einar Hákonarson). Með þessari nálgun er áréttað að það er ekki síður verðugt rannsóknarefni að kanna hvernig hinir fornu textar hafa kviknað til lífs á síðari tímum við nýjar aðstæður og í ólíkum greinum heldur en að leita aðeins að hinni einu upprunalegu merkingu textans.

Haraldur Hreinsson, doktorsnemi: Patmos í norðri. Opinberunarbókin í meðförum Sjóns, Eiríks Arnar Norðdahl og Hugleiks Dagssonar

Þó Opinberunarbókin hafi ekki fengið öruggan sess í hinu kristna helgiritasafni fyrr en tiltölulega seint á mótunarskeiði þess og allar götur síðan verið á jaðri kanónsins,  enda ritið torskilið mjög og óárennilegt, þá eru fá rit Biblíunnar sem hafa haft jafn margbreytileg áhrif á vestræna menningu og listir. Íslensk menning er þar engin undantekning. Á umliðnum árum, n.t. frá árinu 2008, hafa komið út þrjú íslensk bókmenntaverk sem skarast í textatengslum við Opinberunarbókina og ýmsa aðra apókalyptíska texta Biblíunnar með áhugaverðum hætti. Er hér um að ræða Rökkurbýsnir (2008) eftir Sjón, Gæsku (2009) eftir Eirík Örn Norðdahl og Opinberun (2012) eftir Hugleik Dagsson