Biblían er uppfull af frásögum um konur.  Annað gæti hún ekki verið, enda geymir hún sögur úr lifandi lífi kynslóða, bæði venjulegar manneskjur, oft í óvenjulegum aðstæðum og svo frásagnir af  því hvernig Guð grípur inn í aðstæður þess.  Bæði Nýja og Gamla testamentið geyma frásagnir af konum,  alls konar konum sem sagt er frá af ýmsum ástæðum.  Sumar þeirra þekkjum við vel og aðrar síður.  Tvær konur Biblíunnar hafa þó lengi verið í forgrunni umfram aðrar, þær Eva og María.  Eva, sem sagt er frá í Fyrstu Mósebók  er móðir alls sem lifir, en einkum er hún þó þekkt fyrir að vera konan sem tældi Adam til falls og lét hann bíta af eplinu, og svo María móðir Jesú.  Á sinn hátt eru þessar konur andstæður, Eva sem er valdur að syndafallinu í hefðbundinni kristinni túlkun og María, móðir Jesú sem með krossfestingu sinni og upprisu brúar bilið milli manns og Guðs á ný og bætir fyrir allar syndir.  En bæði þessi nöfn, Eva og María, hafa verið afar vinsæl á Íslandi, María  þó lengur, og það er athyglisvert að eitt algengasta tvínefni stúlkna hér á landi hefur um skeið einmitt verið Eva María.

Eitt af því sem gerðist upp úr aldamótunum 1900 um leið og kvennahreyfingunni óx fiskur um hrygg var að konur fóru að lesa Biblíuna frá eigin sjónarhorni og athuga hvað hún hefur að segja um konur.  Og þá vaknaði vitundin um allan þennan fjölda kvenna sem sagt er frá og gegndu jafnvel óvenjulegum hlutverkum.  Í Dómarabók Gamla testamentisins lesum við um Debóru, sem var fjórði dómari Ísraelsþjóðarinnar og sem slík leiðtogi þjóðar sinnar.  Þegar Vigdís Finnbogadóttir var sett inn í embætti forseta Íslands, fjórði forseti lýðveldisins, prédikaði þáverandi biskup, Sigurbjörn Einarsson, einmitt út frá textanum um Debóru.  Í Fyrri Konungabók Gamla testamentisins er sagt frá Huldu, sem stundum hefur verið nefnd „fyrsti guðfræðingurinn“ þar sem hún fær það vandasama hlutverk þegar lögbók finnst í musterinu í Jerúsalem að ráða í þann boðskap sem þar er að finna.  Þarna er því ekki leitað t.d. til konungsins eða prestanna í musterinu heldur konunnar Huldu og farið að ráðum hennar. 

En ekki njóta allar konur í Gamla testamentinu slíkrar virðingar.  Þar er líka að finna texta sem einfaldlega má nefna „hryllingstexta“ sem segja frá hörmulegu ofbeldi gegn konum.  Konur sem eru misnotaðar kynferðislega og beittar harkalegu ofbeldi.  Hér má til dæmis nefna dóttur Jefta sem sagt er frá í Dómarabókinni, en henni er fórnað vegna heita föður hennar við Guð, og svo frásögn Fyrstu Mósebókar af stúlkunni Dínu sem er nauðgað hrottalega.  Þessar frásagnir af kynbundnu ofbeldi fengu ekki athygli eða vægi fyrr en konur fóru að hasla sér völl í biblíufræðunum í háskólunum upp úr 1960.  Fleiri konur má nefna úr Gamla testamentinu svo sem óbyrjuna Hönnu í Fyrstu Samúelsbók sem biður Guð að gefa sér barn, og henni er eignaður fallegur lofsöngur.

Í Nýja testamentinu er ekki síður að finna áhugaverðar konur.  Í guðspjöllunum er sagt frá því að Jesús ræddi við konur á almannafæri og snerti þær, tók í hönd þeirra og fannst hann ekki óhreinn þótt þær snertu hann þegar þær höfðu blæðingar.  En allt þetta var í andstöðu við hefðir samtíma hans.  Hann ræddi við konur og treysti þeim fyrir hlutverki sínu.  Í Jóhannesarguðspjalli má lesa játningu Mörtu, vinkonu Jesú, þar sem hún játar trú á hann sem Krist, son Guðs.  Og gleymum því ekki heldur að fyrstu upprisuvottarnir voru konur.  Það voru konur sem fyrstar komu að gröf Jesú og sáu að hún var tóm, og fengu að heyra að hann væri upp risinn.  Það er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að á þeim tíma voru konur ekki vitnisbærar fyrir dómi! 

Í hinum fyrstu kristnu söfnuðum gegndu konur jafnframt ábyrgðarhlutverkum, þær voru djáknar og lögðu fé í rekstur þeirra.  Í Postulasögunni er sagt frá Lydíu sem tók skírn „og heimili hennar“ og hafði hún því forystu í þessum málum fyrir hönd sinnar fjölskyldu.

Á Biblíudegi og konudegi er því ekki úr vegi að taka Biblíuna sér í hönd og gefa sér tíma til að kynnast konunum í Biblíunni örlítið betur.

Ninna Sif Svavarsdóttir