Ragnhildur Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags (Híb). Hún hóf störf 1. febrúar 2014 og er boðin velkomin til starfa.
Ragnhildur er kennari að mennt og hefur einnig lokið djáknanámi og meistaranámi í stjórnun frá Háskóla Íslands. Hún hefur m.a. starfað sem grunnskólakennari á Íslandi og í Svíþjóð, verið framkvæmdastjóri KSH og framkvæmdastjóri Landssambands KFUM og KFUK. Hún starfaði sem djákni í Fella- og Hólakirkju og hefur undanfarið verið verkefnisstjóri kærleiksþjónustu á Biskupsstofu.
Ragnhildur hefur víðtæka reynslu af stjórnun og innlendu og alþjóðlegu samstarfi. Það kemur sér vel vegna aukins samstarfs Híb við systurfélögin á Norðurlöndum.
Starf framkvæmdastjóra Híb var auglýst í okóber 2013 og bárust 23 umsóknir, margar frá mjög hæfum umsækjendum. Þeim er þakkaður áhuginn og hefur verið haft samband við alla umsækjendur.

Stjórn Híb vill leggja aukna áherslu á erindrekstur félagsins á meðal unnenda Biblíunnar hér á landi. Auk þess bíða nýs framkvæmdastjóra ærin verkefni í tengslum við 200 ára afmæli félagsins á næsta ári.