Hið íslenska biblíufélag (Híb) fór ekki varhluta af bankahruninu árið 2008 frekar en aðrir. Það þrengdi að sjóðum félagsins og fór svo að félagið hafði ekki lengur bolmagn til að hafa starfsmann á launum. Erlendir samstarfsaðilar  okkar fylgdust með þróuninni úr fjarlægð og ástandinu á Íslandi. Fulltrúar norska biblíufélagsins , Det Norske Bibelselskap, höfðu samband við félagið síðastliðið sumar og óskuðu eftir að fá að heimsækja landið og funda með stjórn félagsins. Í lok ágúst 2013 kom dr. Ingeborg Mongstad-Kvammen, framkvæmdastjóri  norska biblíufélagsins, til landsins ásamt Bernt G. Olsen. Hann hefur stýrt söfnunum  norska biblíufélagsins síðastliðin þrjátíu ár.Tilgangur heimsóknar Norðmannanna var að verða að liði á Íslandi, ef unnt væri og vilji fyrir hendi.

Í framhaldi af þeim fundi var undirritaðri, sem er varaforseti Híb, boðið til Noregs til fundar  með framkvæmdastjórum skandinavísku biblíufélaganna auk framkvæmdastjóra biblíufélaganna í Eistlandi og Lettlandi. Markmið fundarins var meðal annars að leita leiða til að snúa vörn í sókn í Hinu íslenska biblíufélagi auk þess að heyra hvað væri á döfinni hjá biblíufélögum nágrannalandanna.

Sóknarfæri víða

Mörg biblíufélög eru með blómlega bókaútgáfu og var athyglisvert að sjá í hve margvíslegu broti og fjölbreyttum útgáfum Biblían er gefin út á norsku. Norska biblíufélagið er vel statt fjárhagslega. Það á talsverðar eignir og hefur fjölda manns á launaskrá enda er útgáfustarfsemin blómleg. Félagið gefur út  biblíutengdar bækur, jólakort og margt annað til fjáröflunar.

Um leið og gagnlegt er að líta yfir farinn veg og læra af því sem biblíufélögin hafa gert síðastliðin ár og áratugi þá er ekki síður mikilvægt að horfa til framtíðar og nýta þau sóknarfæri sem eru framundan. Danska biblíufélagið var skuldum vafið fyrir nokkrum árum þegar stjórn félagsins ákvað að snúa vörn í sókn og gera ýmsar afdrifaríkar breytingar í rekstrinum. Á örfáum árum komst félagið út úr skuldum og fór að skila hagnaði. Heimasíðu félagsins var gjörbreytt og tæknin nýtt til að koma Biblíunni til dönsku þjóðarinnar. Þar sem Íslendingar eru alla jafna fljótir að tileinka sér nýjungar er tímabært að Hið íslenska biblíufélag komi Biblíunni á app og geri heimasíðu félagsins þannig úr garði að eftirsóknarvert verði að fylgjast með henni og leita upplýsinga þar. Stjórn HÍB hefur  þetta á verkefnaskránni og eru hugmyndir lesenda um nýjungar vel þegnar. Þær má senda á hib@biblian.is

Hlutverk Biblíufélagsins

Hið íslenska biblíufélag var stofnað árið 1815 og gegnir því hlutverki að sjá landsmönnum fyrir Biblíum á íslensku. Biblíufélög eru starfandi í mörgum löndum og er Ísland aðili að alþjóðlegu samstarfi biblíufélaga í heiminum. Hlutverk biblíufélaga er alls staðar það sama. Auk þess að sjá hverju heimalandi  fyrir Biblíum hafa biblíufélögin bundist samtökum um að hjálpa þeim löndum sem eru ekki aflögufær eða eiga ekki Biblíur á sínum tungumálum.

Eins og félagsmönnum Hins íslenska biblíufélags er kunnug stendur félagið fyrir söfnunum nokkrum sinnum á ári. Stundum rennur söfnunarféð til þeirra landa sem vantar sárlega Biblíur. Á síðasta ári heimsótti starfsmaður norska biblíufélgsins Kúbu og komst að því að fjöldi kristinna  þar átti ekki Biblíu, ekki vegna þess að fólkið gæti ekki lesið heldur vegna þess að Biblíur voru hreinlega ófáanlegar. Norska biblíufélagið hratt af stað söfnun til að útvega íbúum Kúbu Biblíuna.

Biblían tilvalin gjöf á tímamótum

Íslendingar hafa búið vel að Biblíuþýðingum í margar aldar, en eins og lesendum B+ er væntanlega kunnugt kom Biblían fyrst út á íslensku árið 1584. Biblían hefur haft  gríðarlega mikil áhrif á íslenska tungu auk allra þeirra áhrifa sem hún hefur haft á daglegt líf þjóðarinnar. Um langa hríð hefur tíðkast að fermingarbörnum hafi verið gefin Biblía í fermingargjöf og er Biblían tilvalin gjöf á ýmsum tímamótum í lífinu. Afar og ömmur þessa lands hafa viðhaldið þeim góða sið að sjá barnabörnum sínum fyrir Biblíu og hvetja til lesturs hennar. Undanfarin ár hafa blikur verið á lofti í íslensku samfélagi og margt sem bendir til þess að fjari undan þessari venju með yngri kynslóðum. Það er því áskorun að koma Biblíunni til þeirrar kynslóðar sem verður við völd í landinu eftir örfáa áratugi.

 

Fjölga þarf félagsmönnum

Ein af áskorunum Hins íslenska biblíufélags á næstu mánuðum og árum verður að fjölga félagsmönnum. Þeir sem láta sér annt um Biblíuna og skilja mikilvægi þess að hún sé gefin út á íslensku þurfa að ganga í félagið. Það er ósk stjórnar Hins íslenska biblíufélags að lesendur veki athygli vina og vandamanna á félaginu og hvetji fólk til þátttöku. Hægt er að ganga í félagið með því að skrá sig á heimasíðunni biblian.is

Stjórn Hins íslenska biblíufélags er þakklát fyrir að félagið skuli vera hluti af stærri heild þar sem samstaða, stuðningur og velvild knýr starfið áfram. Í heimi þar sem stöðugar fréttir berast af stríði og átökum er frábært til þess að vita að víða er unnið mjög gott uppbyggingarstarf þótt það rati ekki í fjölmiðla.

Dögg Harðardóttir, varaforseti Hins íslenska biblíufélags.