Hinn 25. nóvember síðastliðinn var sjálfstætt biblíufélag stofnsett í Serbíu. Allt frá árinu 1945 þegar starf biblíufélaganna hófst að nýju í fyrrum Júgóslavíu, hefur starfið byggst upp í kringum þjónustu frá Breska og erlenda biblíufélaginu. Hefur sú starfsemi gjarnan átt undir högg að sækja og oftar en einu sinni hafa stjórnvöld hótað að banna hana. Þá hefur það fólk sem starfað hefur að útbreiðslu Biblíunnar orðið fyrir miklu og alvarlegu áreiti.
Nú hefur félagið hins vegar verið stofnað formlega og því hafa verið sett lög sem tryggja eiga stöðugan ramma utan um starfsemi þess. Undir lok síðasta mánaðar var fyrsti stjórnarfundur hins nýja félags haldinn og Lavrentije biskup tekið við embætti forseta þess.
Allar kirkjudeildir njóta góðs af starfsemi félagsins og voru fulltrúar þeirra flestra viðstaddir stofnun félagsins. Þótti merkilegt að sjá að langflestir fulltrúanna voru yngri en fjörtíu ára. Á stofnfundinum ávarpaði Peter Wigglesworth nærstadda fyrir hönd Sameinuðu biblíufélaganna og lýsti ánægju með þá ætlun nýrrar stjórnar að efla félagið og styrkja.