Í umræðu um kennslu um kristin fræði í skólum, er oft bent á mikilvægi þess að nemendur þekki þann menningararf sem þeir tilheyra. Á Íslandi, eins og annars staðar í hinum kristna heimi, er fólki nauðsynlegt að þekkja til Biblíunnar til þess að geta skilið menningarlegt samhengi þess samfélags sem það tilheyrir. Sú staðreynd virðist því miður ekki ná eyrum þeirra sem tala gegn því að nemendur í skólakerfinu njóti fræðslu um efni hennar og boðskap.

Víða hefur fólk orðið áskynja um að minnkandi þekking og skilningur á bókum Biblíunnar sé farinn að koma niður á ungu fólki. Því reynist æ erfiðara að tileinka sér menningararfleið þjóðar sinnar og getur illa skilið margt af því sem því væri mögulegt að njóta, hefði það frekari undirstöðuþekkingu á Biblíunni. Af þeim sökum hafa biblíufélög í mörgum löndum verið kölluð til samstarfs um að útbúa fræðsluefni  um Biblíuna til notkunar innan skólakerfisins. Það hefur m.a. verið gert innan breska skólakerfisins. Vanþekking á textum Biblíunnar er farin að valda því að ungt fólk þar í landi á erfitt með að skilja til hlítar menningarleg stórvirki á borð við leikrit Shakespears.

Í Bandaríkjunum hefur um nokkurra ára skeið verið starfrækt verkefni sem ber yfirskriftina „Bible Literacy Project“ en það byggir grundvöll sinn á kennsluriti sem kallast „The Bible and its influence“ eða „Biblían og áhrif hennar“. Hafa nú yfir 470 skólar í 43 fylkjum Bandaríkjanna kosið að nýta sér bókina til þess að uppfræða nemendur um Biblíuna og áhrif hennar í menningu okkar. Verkefnið og bókina má kynna sér á vefslóðinni: http://www.bibleliteracy.org/site/. Hafa mörg ríki nú lagt áherslu á að styðja við verkefnið og í fimm ríkjum Bandaríkjanna hafa verið sett lög sem ýta undir kennslu af þessu tagi.

Aðstandendur verkefnisins ‘Bible Literacy Project’ lögðu sig fram um að tryggja sátt um efnistök bókarinnar sem verkefnið hverfist um. Var í því skyni leitað álits víða í samfélaginu – áður en hafist var handa við að prenta bókina og dreifa henni. Hefur sú viðleitni skilað sér í jákvæðu viðhorfi til verkefnisins. Þeim fylkjum Bandaríkjanna, sem ekki hafa tekið verkefnið upp á sína arma, er nú boðin þátttaka í því án þess að þurfa að leggja því til fjármuni.