Tímamót

Í ár fagna Bretar þeim tímamótum að 400 ár eru liðin frá prentun þeirrar biblíuþýðingar sem oftast er kennd við Jakob I, konung Englands (1603-1625). Er hún talin til mestu afreka bókmenntasögunnar í ljósi þeirra áhrifa sem þýðingin hefur haft allar götur frá því að hún var fyrst gefin út. Er stundum haft á orði að hún sé hinn „opinberi“ texti breska heimsveldisins og að fáir textar hafi haft jafn sameinandi áhrif í sögunni. Í tilefni tímamótanna mun umfjöllun um þýðinguna og áhrif hennar vera mjög sýnileg víða í Bretlandi og raunar víðar um hinn enskumælandi heim. Hið íslenska Biblíufélag mun af þeim sökum upplýsa lesendur vefsvæðisins biblian.is um það sem hæst ber í því tilliti.

Tilurð þýðingarinnar

Plágan mikla setti svip sinn á allt mannlíf í Englandi á fyrstu áratugum 17. aldar. Þó áhrif hennar hafi verið mikil og afleiðingarnar geigvænlegar, olli hún ekki algjörri stöðnun í menningar- og trúarlífi Evrópu. Skömmu eftir að Jakob I var krýndur konungur Englands og sameinaði það Skotlandi undir eina krúnu, boðaði hann leiðtoga ensku kirkjunnar til fundar við sig þar sem trúmál og framtíð kirkjunnar skyldu rædd. Á ráðstefnunni, sem haldin var í Hampton Court í byrjun árs 1604, var ræddur sá möguleiki að ráðist yrði í nýja þýðingu Biblíunnar. Var tillagan ekki síst borin fram til að friða hina svokölluðu púrítana sem mjög var uppsigað við orðalag tiltekinna ritningarstaða þeirrar þýðingar sem þá var í notkun.

Réðist konungur í hið mikla verkefni af miklum myndarskap og í lok árs 1604 voru 47 fræðimenn ráðnir til verksins. Voru þeim gefin skýr fyrirmæli af hendi konungs um að þýðingin þyrfti að endurspegla kirkju- og trúarskilning ensku kirkjunnar og að áhrifum púrítana skyldi haldið í lágmarki. Var og gerð krafa til þess að tiltekin hebresk og grísk orð yrðu þýdd með sama hætti og áður hafði verið gert. Fræðimennirnir fengu ekki greidd laun fyrir vinnu sína en þess í stað var biskupum kirkjunnar uppálagt að hafa þá í huga, ef háar og góðar stöður losnuðu innan kirkjunnar.

 

Þýðingarstarfið fór fram í sex nefndum sem höfðu starfsaðstöðu í háskólunum í Oxford og Cambridge og dómkirkjunni í Westminister. Lauk starfi þeirra í árslok 1608 og geta heimildir þess að nefndin sem tók á þýðingu apókrýfu bóka Gamla testamentisins hafi fyrst orðið til þess að skila vinnu sinni. Að því loknu tók samhæfingarnefnd til starfa. Gerði hún nokkrar breytingar á fyrirliggjandi þýðingu en lokaorðið um heildatextann hafði Richard Bancroft, erkibiskup í Kantaraborg. Breytingar hans voru fjórtan talsins.

Hin nýja þýðing leit dagsins ljós á prenti árið 1611. Umbrotið var í fólíóstærð og fékkst hún óinnbundin fyrir tíu shillinga en innbundin fyrir tólf. Hinn konunglegi prentari, Robert Barker, lagði út í mikla fjárfestingu í tengslum við prentunina og varð nærri gjaldþrota af þeim sökum. Á komandi árum breiddist hin nýja þýðing út um hinn enskumælandi heim. Er hún enn prentuð og seld víða um heim og óhætt er að fullyrða að fáar þýðingar hafi haft jafn mótandi áhrif á menningu Vesturlanda og hún.