Kameroon – Við jaðar héraðsins Adamaoua í Mið-Kameroon er fallegt fjallaþorp sem kallast Yoko. Húsin standa á tveimur hliðum og mynda einskonar mósaík mynd þegar horft er á þau úr fjarlægð. Það er þess virði að leggja á sig að ferðast þangað því ferðalagið býður upp á mikla náttúrufegurð.

Það tók starfsmenn Biblíufélagsins í Kameroon níu klukkustundir að ferðast 300 km frá Yaoundé, höfuðborg Kameroon, til Yoko 1. desember sl. Einn starfsmaðurinn orðaði það svo að vegurinn hefði verið í hræðilegu ástandi og helst líkst slóð eftir fíla.

Þegar hópurinn kom loks til Yoko var haldin sérstök athöfn til að fagna útkomu Nýja testamentisins á Vutu máli. Um 30 þúsund manns voru samankomnir á svæðinu sem liggur á milli kaþólsku kirkjunnar og þeirrar lútersku í þorpinu. Sumir höfðu lagt á sig 130 km ferðalag til að taka þátt í hátíðarhöldunum. Fólkið dansaði og hrópaði fagnaðaróp. Þetta var hávær og litrík samkoma. Síðan voru haldnir tónleikar og allir skemmtu sér saman.

Þessi samkoma var að mörgu leyti táknræn fyrir þá samheldni sem er að vaxa fram á meðal fólksins. Það er ekki svo langt síðan að blóðug átök áttu sér stað á svæðinu þegar gerð var uppreisn gegn þáverandi forseta landsins Amadou Ahidjo. Þá var Yoko breytt í fangelsisbæ þar sem andstæðingum stjórnarinnar var haldið og þaðan sem fáir sluppu lifandi. En nú stóð fólkið saman og söng og gladdist yfir útkomu Nýja testamentis á þeirra eigin tungumáli.