Í Háskóla Íslands er nú á vormisseri boðið upp á námskeiðið Biblían sem bókmenntaverk.  Þótt námskeiðið sé þverfaglegt, telst það hluti af grunnnámi í námsleiðinni almennri bókmenntafræði, en sú grein hefur nú verið kennd í Háskóla Íslands í fjóra áratugi. Í upphafi var almenn bókmenntafræði hýst innan heimspekideildarinnar gömlu en heyrir nú til nýrrar deildar, Íslensku- og menningardeildar, á Hugvísindasviði. Umsjónarmaður námskeiðsins um Biblíuna sem bókmenntaverk er Gottskálk Jensson prófessor í almennri bókmenntafræði en einnig annast kennslu guðfræðiprófessorarnir Gunnlaugur A. Jónsson, sem miðlar nemendum af þekkingu sinni á Sálmunum, og Jón Ma. Ásgeirsson sem tekur fyrir handritafundi síðari tíma, veitir yfirlit um þá flóru rita sem tengist Biblíunni en stendur utan við hana og fjallar um hið sögulega samhengi í pólitík ólíkra kirkjudeilda varðandi ritsafnið Biblíuna. Um þrjátíu nemendur eru skráðir í námskeiðið, sem miðast við þarfir nemenda fyrir haldgóða og yfirgripsmikla kunnáttu í bókmenntasögu fyrri alda. Meðal heimsbókmenntanna skipar Biblían auðvitað mikilvægan sess.

Því er ekki að neita að ákveðið nýnæmi er að þessu námskeiði í bókmenntafræðikennslu við Háskóla Íslands. Þótt Biblían njóti almennt mikillar virðingar og þýðing hennar sé óumdeild fyrir menningu okkar og samfélag, er samt þekkingin á ritum hennar ekki að sama skapi útbreidd. Lestur Biblíunnar er því í engu samræmi við virðingu ritsins og sögulegt mikilvægi. Aðgreining deilda og greina í háskólum ásamt ákveðinni fælni fyrri kynslóða bókmenntafræðinga við Biblíuna (sem stafar af sögulegu hlutverki hennar sem heilagrar ritningar) hafa gert það að verkum að rannsóknir á Biblíunni sem bókmenntatexta hafa lengi verið í lágmarki. Engu að síður er það öllum bókmenntafræðingum ljóst að Biblían hefur miðlæga stöðu í bókmenntakerfum Vesturlanda og víðar. Án þekkingar á sögum Biblíunnar, túlkunarsögu hennar og hinni biblíulegu hefð í bókmenntunum, er hætt við ónógum skilningi á sumum þeirra rita sem flokkuð eru til heimsbókmenntanna.

Nýnæmi er að þessu námskeiði því þótt prófessor Þórir Kr. Þórðarson hafi boðið upp á sambærilegt námskeið í heimspekideildinni gömlu eru nú liðnir meira en tveir áratugir síðan. Námskeið hans sem hann nefndi Bíblían af sjónarhóli bókmenntafræða var haldið einu sinni, haustið 1989. Tveimur árum síðar gaf Þórir út gormahefti með fyrirlestrum sínum og öðru efni sem tengdist námskeiðinu, og gefur það ágæta mynd af efnistökum hans. Minningin um þetta námskeið lifir raunar enn meðal sumra bókmenntafræðinga enda fór kennarinn á kostum og þekking hans var síður en svo takmörkuð við guðfræði og biblíurannsóknir heldur virtist hann kunna jafngóð skil á öllum nýjustu kenningunum í bókmenntafræði á þeim tíma.

Í námskeiðinu núna er leitast við að veita yfirlit yfir bókmenntaefni í Biblíunni, sem er safn rita úr ólíkum áttum eftir ólíka höfunda er skrifuðu á fleiri en einu tungumáli og á löngu tímabili, en auk þess eru lesin nokkur rit sem ekki teljast til reglurita. Auðvitað er ekki tími til þess að lesa allt jafn vandlega heldur er sumt hraðlesið, annað aðeins skimað. Til samanburðar við rit Biblíunnar eru höfð egypsk, mesopótamísk, grísk, koptísk og latnesk fornaldarrit. Biblíuritin eru lesin sem arfsagnir, skáldskapur, spekirit, sagnfræði og mannleg viðhorf, þ.e. sem fornaldarbókmenntir og heimsbókmenntir. Einnig er litið á viðtökur Biblíunnar í gegnum tíðina, mikilvægi þýðinga fyrir viðtökurnar og sömuleiðis fjallað um kenningar bókmenntafræðinga um texta- og túlkunarsamfélög.

Við skipulag námskeiðs sem þessa eru í aðalatriðum tvær leiðir færar, að lesa og ræða valda kafla úr Biblíunni vandlega, eða að reyna að veita yfirsýn yfir ritsafnið allt með lestri sem flestra ritanna. Ljóst er að á 12-13 vikum er ekki hægt að lesa öll rit Biblíunnar ofan í kjölinn. Síðari leiðin hefur verið valin í yfirstandandi námskeiði, enda um að ræða inngangsnámskeið fyrir verðandi bókmenntafræðinga. Kennslufræðin að baki eru þau að þegar skapast hafi yfirlitsþekking á biblíuritunum í heild sinni, eigi nemendur hægar með að sökkva sér niður í athuganir á einstökum ritum og stunda sjálfstæðar athuganir á þeim. En því ber ekki að neita, að öðruvísi mætti fara að.

Þegar Biblían er lesin sem bókmenntaverk óttast sumir að ritningartextinn afhelgist og verði „eintómar“ bókmenntir, og það kann að vera nokkuð til í því, en þessu fylgir aftur á móti sú áhætta að bókmenntahugtakið aflagist og þurfi að breyta um merkingu til þess að geta rúmað sjálfa Biblíuna. Kannski er það síðarnefnda áhættan sem hélt Biblíunni svo rækilega utan við bókmenntanám víða á Vesturlöndum á ofanverðri 20. öld. En hvað eru bókmenntir eiginlega, hve stöðug er merking þessa hugtaks? Í nýlegri grein í tímariti Hugvísindastofnunar Ritinu, 3. hefti fyrir árið 2010, var bent á þá staðreynd að nýyrðið „bókmenntir“ virðist smíðað fyrir minningarkvæði sem sr. Egill Eldjárnsson, síðar prestur á Útskálum á Reyjanesi, flutti yfir moldum fósturföður síns Jóns Árnasonar Skálholtsbiskups hinn 18. febrúar 1743. Og þegar bókmenntahugtakið var smíðað merkti það einfaldlega „allar menntir á bókum“, þar á meðal augljóslega einnig Biblían. Nærri öld síðar, í Fjölni, öðlaðist bókmenntahugtakið svo þá víðu og fagurfræðilegu, og síðast en ekki síst þjóðlegu, merkingu sem við þekkjum enn. Fyrirbærið bókmenntir er því ekki ýkja gamalt undir þessu heiti, og óþarfi að líta á það sem nein helgispjöll eða misnotkun á bókmenntahugtakinu þótt Biblían sé lesin á þennan hátt.

Gottskálk Jensson
Prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands