Sr. Sigurður Ægisson skrifar:

Frá örófi alda hefur umtal um náungann, bæði illt og gott, verið fylgifiskur mannkynsins. Nærtæk heimild – og þó vafalaust ekki sú elsta, þótt hún bendi nokkur þúsund ár aftur í tímann – er Gamla testamentið. Þar er víða að finna skírskotun til hinnar dekkri myndar þessarar áráttu, að koma af stað vafasömum orðrómi í þeim tilgangi einum að meiða einhvern. Hina allra þekktustu tilvitnun, í þessu sambandi, er að finna í 2. Mósebók, 20:16 (sbr. 3. Mósebók 5:20), en þar segir, að maður skuli ekki bera ljúgvitni gegn náunga sínum. Og fleiri staði er líka að finna þar um kring, að vísu ekki eins þekkta, er gefur ákveðna vísbendingu um hvernig á slík mál var litið. Í 2. Mósebók, 23:1 segir t.d., að maður skuli ekki fara með lygikvittu, og þar litlu síðar (23:7) eru menn beðnir um að forðast lygimál. Og reyndar er sama hvar borið er niður þarna, áfram ber málið á góma, hvað eftir annað, í hinum ýmsu ritum; ekki síst í Orðskviðunum.

Margt hefur líka varðveist frá heimspekingunum grísku, eins og t.d. Platóni (um 427-347 f. Kr.), er á að hafa sagt, að þegar einhverjir tali illa um þig, skulirðu lifa eins og enginn trúi þeim. Og eftir Rómverjanum Marcus Tullius Cicero (106-43 f. Kr.) er haft, að ekkert fljúgi hraðar en slúðrið.

Í Nýja testamentinu er það sama upp á teningnum; þar er rógberinn fordæmdur af mikilli hörku. Í 3. kafla Jakobsbréfs segir t.d.: „Tungan er… eldur… Hún flekkar allan líkamann og kveikir í hjóli tilverunnar, en er sjálf tendruð af helvíti. Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið, en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju, sem er full af banvænu eitri.“
Og svo er þetta efni í umræðunni á öllum tímum eftir það, m.a. í fornbókmenntum Íslendinga, og síðan hinum nýrri (sbr. Gróu á Leiti). Og allar eiga þær tilvitnanir það sameiginlegt, að benda á – með einum eða öðrum hætti – ljótleika eða skaðsemi þess, að fikta við slíkt óábyrgt og óstaðfest hjal. Mottóið er: Varúð.

Já, tungan getur verið mönnum erfið. Jón biskup Vídalín (1666-1720), sjálfur meistari orðlistarinnar, vandar henni ekki kveðjurnar í ritinu Sex prédikanir útaf Píningar Historíu Drottins vors Jesú Christí. Þar segir hann: „Hvör hæðir og spottar, nema túngan? Hvaraf kémur rógur og bakmælgi, nema af túngunni? Hvaðan útfljóta guðlastanir, nema af túngunni? Með hvörju ljúga menn lýtum og skömmum uppá náúngann, utan með túngunni? Hvar búa skammarlegar orðræður og fíblsligt hjal, nema á túngunni?“ Og hann segir líka: „Eitt vont orð grefur meira um sig í hjartanu, en flísin í holdinu.“

Fleiri þekkt ummæli, úr heimi öllum – enda er þetta jú sammannlegt – lúta að þessu. Bulwer-Lytton, enskur stjórnvitringur og ljóðsláld, sem uppi var á árunum 1831-1891, segir t.d.: „Galdur málsins er öllum öðrum töfrum hættulegri.“ Og þýski rithöfundurinn Max Tau (1897-1976) segir: „Orð geta brennt heitar en eldur.“

Nathaniel Hawthorne (1804-1864), bandarískur rithöfundur, er varfærnari: „Orð – jafn saklaus og hjálparvana sem þau eru, þar sem þau standa í orðabókinni, hve áhrifarík til góðs og ills verða þau ekki í höndum þess sem veit hvernig á að tengja þau saman.“ Það má nefnilega ekki gleymast, að orðin eru ekki alltaf vond, heldur geta þau á stundum verið bjartari en sólin. „Eitt gott orð yljar þrjá vetrarmánuði,“ er haft eftir ónefndum indverskum spekingi. Og landi hans, Mahatma Gandhi (1869-1948), ritar á einum stað: „Vinsamleg orð, sögð í dag, geta borið ávöxt á morgun.“

Umfram allt skyldum við muna rússneska spakmælið: „Orð er eins og fugl. Fljúgi það af vörum manns er ekki auðvelt að ná því aftur.“ Og ekki sakar að minnast þess endrum og sinnum, að einhverra hluta vegna erum við gerð út með tvö eyru og jafnmörg augu, en bara einn munn og tungu.

Eins og nefnt var í inngangi, hefur kjaftasagan – bæði ill og góð – lifað með þjóðum heimsins allt frá því maðurinn lærði að tala. Og þrátt fyrir harðan dóm oft á tíðum, og þetta langa ævi, tórir hún enn, og reyndar meira en það, virðist hvergi bera þess merki að hafa látið á sjá, eftir hið langa skrið, göngu, hlaup og flug um mannanna eyru og varir, heldur fer um, ef sá er gállinn á henni, eins og eldur í sinu, og nær til enn fleiri en áður, vegna nútíma tækni. Um lífskraft hennar má best dæma af velgengni slúðurblaða í dag. Og lesendur kaupa, vel að merkja, og hafa gaman af.

Orð svissneska guðfræðingsins Johanns Caspar Lavater (1741-1801) virðast því ekki hafa náð augum margra, en hann mun einhverju sinni hafa ritað eftirfarandi: „Segðu ekki neitt ljótt um náunga þinn, einkum og sér í lagi ef þú ekki ert viss um hið sanna í málinu. En reyndist það nú vera svo, og búirðu yfir vitneskju um það, skaltu fyrst af öllu spyrja þig: Hvers vegna ætti ég að segja það?