Um þessar mundir stendur Hið íslenska biblíufélag fyrir árlegri sumarsöfnun sinni. Að þessu sinni mun söfnunarféð renna til systurfélagsins í Chile sem vinnur nú baki brotnu að hjálparstarfi í kjölfar jarðskjálftans mikla sem reið yfir landið í febrúar síðastliðnum. Skjálftinn mældist 8,8 á richtherkvarða og yfir 500 manns létu lífið. Hamförunum hafa fylgt miklar hörmungar sem enn sér ekki fyrir endan á, þó heimspressan hafi fyrir löngu beint sjónum sínum í aðrar áttir.Hjálparstarfið felst fyrst og fremst í matargjöfum, dreifingu Biblíunnar og öðru því sem stuðlar að því að líf fólksins komist í samt horf og áður. Þetta starf veitir fólkinu von og styrk til þess að reisa við það sem fallið hefur og byggja upp samfélag sem hefur guðsorð að leiðarljósi.
Hið íslenska biblíufélag vill gera allt sem það getur til að styðja Biblíufélagið í Chile við útbreiðslu Orðs Guðs og öðru því hjálparstarfi sem það tekst á hendur. Félagið snýr sér nú sem fyrr til félaga sinna og annarra styrktaraðila með ósk um stuðning við þetta þarfa verkefni.