„Skelfist ekki, hann er upprisinn” voru orð engilsins sem stóð við opna gröf Jesú árla páskadagsmorgunn. Konurnar María Magdalena og María hin sem fyrstar manna fengu að heyra fagnaðarboðskapinn brugðust öndvert við, urðu skelfdar og hlupu við fót og þorðu ekki að segja nokkrum lifandi manni frá því að Jesú Kristur væri upprisinn, sá hinn sami og hafði verið krossfestur þremur dögum áður. Fyrir það fyrsta engin myndi taka þær trúanlegar og í öðru lagi þær voru konur.
Skyldi nokkur furða viðbrögð kvennanna sem komu að gröfinni með nóttina í augunum hvað varðar trúverðugleika þess að manneskja sem hafði verið pyntuð og nelgd upp á kross til að hljóta hægan kvalafullan dauðdaga skildi snúa á kvalara sína og rís upp frá sársaukanum frá dauðanum sem lék sér að honum dögunum á undan – hafði allt í sinni hendi. Það er ekkert fallegt við þá frásögu. Hvernig manneskjan leyfir sér að koma fram við aðra manneskju. Því miður er þetta ekki frásaga sem aðeins gerðist á dögum fjarlægum okkur og á vissan hátt verið hjúpuð helgiblæ aldanna. Þetta er að gerast á okkar dögum. Mynd þessara frásögu á sér margvíslegar tilvísanir á síðustu dögum vikum og mánuðum eitthvað sem við héldum að væri fjarrri okkar litla landi. Ísköld staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá. Kann að vera að við leiðum það hjá okkur eins og við viljum í ríkari mæli leiða hjá okkur boðskap páskanna í flóðljósi upplýsingar og skynsemi. Upprisan og það sem gerðist dagana á eftir nær allt til okkar daga. Það varð ekkert eins og var.
Páskaatburðurinn er ekki einhver atburður sem átti sér stað og tíminn í rólegheitum sporar út þar til ekkert er eftir sem segir og minnir á. Það er allt sem minnir okkur á páskaatburðinn á hverju andartaki lífs okkar ef viljum setjast niður og horfa á og hlusta. Gefa okkur tíma og sjá það smáa sem er við fætur okkar, vex upp og deyr. Við viljum nefnilega bara horfa á vöxtinn en ekki það sem er á hinum enda þess. Hvað er það sem veitir vöxtinn og hlúir að. Það hefur löngum verið fjarri í huga okkar eins og staðreyndir síðustu ára hafa leitt í ljós þrátt fyrir fullan hnefa af skynsemi og upplýsinga um hið gagnstæða.
Við skulum leyfa inntaki páskana eiga sér stað og sess í huga. Þá staðreynd að freðin ásjóna dauðans roðnar undan birtu páskasólarinnar-vekur til lífsins, lyftir upp því sem í mold hafði legið. Á þetta ekki aðeins við um hamskipti náttúrunnar heldur og hugsun okkar og tilveru almennt. Snúum þeim gildum, sem við höfum hlaðið um okkur á hvolf og uppgvötum frelsi þess að hugsun okkar er takmörkum sett. Sættum okkur við það.
Það er “vetur” hugsana hjá svo mörgum. Áhyggjur af afkomu og þess sem verður. Við vitum að það verður en við vitum ekki hvað það verður. Þangað til skulum við ekki hafa áhyggjur af því hvað mun gerast.
Sá atburður gerðist sem breytti öllu og við fögnum. Við skulum ekki ætla að svo gerist ekki í dag. Kann að vera að fögnuður þjóðar sé rámuð af kvefi væntinga um eitthvað meira og stærra. Til þess að stækka þurfum við að byrja á því að vera smá og sættum okkur við það. Verum stór í því smáa. Þá þurfum við ekki í skelfingu hugans hlaupa frá og þora ekki fyrir okkar smáa að segja nokkrum manni frá sem um síðir allir vissu og þrátt fyrir það neita að horfast í augu við staðreyndir sem blasa við.
Þess vegna er hægt að segja að atburður páskadagsmorguns sé sístæður í lífi okkar. Um síðir sögðu konurnar frá því sem þær urðu áskynja. Það er hægt að segja eins og fermingardrengurinn um árið “við sem í dag lifum vitum það.” Spurningin sem eftir stendur hvað gerum við, með þá vitneskju?
Guð gefi þér og þínum gleðilega páskahátíð!
sr. Þór Hauksson