Biblíudagurinn var haldinn hátíðlegur á sunnudaginn var 7. febrúar. Útvarpsguðsþjónustan var í Seltjarnarneskirkju að þessu sinni þar sem prestur kirkjunnar sr. Sigurður Grétar Helgason þjónaði fyrir altari og sr. Sigurður Pálsson, stjórnarmaður í HÍB, prédikaði. Guðsþjónustan var mjög vel sótt.

Aðalfundur félagsins var síðan haldinn í safnaðarheimili kirkjunnar eftir guðsþjónustuna. Hófst hann klukkan 12:30 og lauk ekki fyrr en 15:30 sem var óvenju langur tími. Réðst það að því að umræður um stöðu og starf félagsins voru miklar. Fundarmenn einnig margir sé miðað við fyrri aðalfundi félagsins. Breytingatillögur á lögum félagsins voru jafnframt til umræðu og voru samþykktar með lítilsháttar breytingum. Lög félagsins í núverandi mynd eru nú komin inn á heimasíðuna og má sjá þau með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan. Var ekki annað að sjá en félagar hefðu verið ánægðir með afrakstur fundarins og einbeittir í að efla áfram starf þess bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi innan Sameinuðu biblíufélaganna.

Hægt er að skoða nýju lögin á slóðinni: http://biblian.is/hid-islenska-bibliufelag/log-hins-islenska-bibliufelags/