2.454 tungumál sem Biblían eða hlutar hennar hafa verið þýddir á

Að gera boðskap Biblíunnar aðgengilegan og auðskilin hefur verið kjarninn í starfi biblíufélaga allt frá stofnun fyrsta biblíufélagsins fyrir meira en 200 árum. Og það að þýða Biblíuna á tungumál ólíkra þjóða og þjóðflokka hefur verið sú leið sem biblíufélögin hafa farið.
Vegna mikillar útbreiðslu tungumála eins og ensku, frönsku og spænsku geta um 95 prósent jarðarbúa lesið Biblíuna á tungumáli sem þeir skilja. Samt er stór hluti þessa hóps að lesa Biblíuna á máli sem er ekki þeirra eigið. Þegar fólk les Biblíuna á sínu eigin móðurmáli talar boðskapur hennar sterkast til þess. Því vinna biblíufélögin að því að þýða hana á þau tungumál sem töluð eru í heiminum.
Þetta verkefni er gríðarstórt í ljósi þess að Biblían í heild sinni hefur aðeins verið gefin út á 438 tungumál og Nýja testamentið á 1.168 tungumál af þeim um 6.900 tungumálum sem talið er að töluð séu í heiminum í dag. Hlutar Biblíunnar, þ.e. einstaka bækur hennar eða guðspjöll, hafa verið gefin út á 848 tungumál.
Sameinuðu biblíufélögin, sem eru samtök allra biblíufélaga sem starfandi eru, vinna núna að 564 þýðingarverkefnum víðsvegar í heiminum. Þessi verkefni eru kostuð með framlögum félaga og stuðningsaðila þeirra biblíufélaga sem eru í ríkari hlutum heimsins. Félagar og stuðningsaðilar Hins íslenska biblíufélagsins hafa stutt dyggilega við þetta starf.