Merki nýju biblíuþýðingarinnar.
Ný þýðing Biblíunnar kom út 19. október sl. Það eru liðin 95 ár síðan ný þýðing Biblíunnar kom út síðast en það var árið 1912. Sú þýðing var Biblía 20. aldar og því viljum við kalla þessa nýju þýðingu Biblíu 21. aldar.
Margir hafa komið að þessu verki sem staðið hefur óslitið frá árinu 1990. Sem dæmi má nefna að þýðingarnefndir Gamla og Nýja testamentisins hafa haldið hátt í 700 fundi, sem venjulega stóðu í þrjá tíma. Aðrir fundir með þýðendum og yfirlesurum eru hátt í eitthundrað.
Markmið þessarar nýju þýðingar Biblíunnar, sem er sú sjötta í röðinni frá útkomu Guðbrandsbiblíu 1584, er það sama og allra þýðinga, að gera boðskap Biblíunnar aðgengilegan sérhverri samtíð. Íslenskt mál hefur tekið miklum breytingum síðan þýðingin 1912 kom út og textinn var því orðin óaðgengilegur nútíma fólki. Þessi nýja þýðing mun auðvelda fólki lestur og skilning á Biblíunni og til að meðtaka boðskap hennar.