Ungt fólk las upp Biblíu 21. aldar um allt land

Vikuna 28. október til 4. nóvember stóð ÆSKÞ fyrir verkefninu B+ í samstarfi við Hið íslenska biblíufélag og æskulýðsfélög í kirkjunni. Lagt var upp með það verkefni að lesa Biblíu 21. aldar í heild sinni á landinu öllu.

Nýju þýðingu biblíunnar var skipt upp í 28 hluta og þeim deilt niður á æskulýðsfélög í landinu og utan landssteinana. Fermingarbörn í Noregi tóku einnig þátt í verkefninu. Misjafnt var hver umbúnaður verkefnisins var á hverjum stað og nákvæmlega hvaða hópar lásu. Biblíumaraþon var haldið á fleiri en einum stað, kökubasar, tónlist leikin milli lestra, helgistundir í bland, safnað var áheitum, boðið var upp á að skrá nýja félaga í Biblíufélagið og þannig mætti áfram telja. Sumir hópar notuðu verkefnið sem fjáröflun vegna ferðar á mót eða annarra verkefna sem æskulýðsfélögin eru víða að undirbúa.

Krakkarnir sem tóku þátt í verkefninu og leiðtogar þeirra stóðu sig frábærlega. Fyrir hönd ÆSKÞ vil ég þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd B+ fyrir samstarfið og þátttökuna.

Stjórn Hins íslenska biblíufélags og Jóni Pálssyni framkvæmdarstjóra þakka ég sérstaklega fyrir stuðninginn við B+ og framlag þeirra til æskulýðsfélaganna.

Höldum áfram að leyfa Orðinu að leiða okkur og lýsa á Drottins vegi.

Þorvaldur Víðisson