Áttunda allsherjarþing Sameinuðu biblíufélaganna fer nú fram í Seoul í Suður-Kóreu. Sameinuðu biblíufélögin eru samtök allra starfandi biblíufélaga í heiminum sem nú eru 146 talsins í öllum heimsálfum. Þau byggja á þeirri hugsjón að gera öllu fólki kleift að eignast Biblíuna á viðráðanlegu verði og kynnast með því hinu lifandi orði Guðs sem á erindi við alla menn. Sameinuðu biblíufélögin voru stofnuð árið 1946, strax í kjölfar heimsstyrjaldarinnar og var verkefni samtakanna skilgreint á þann veg að það ætti að stuðla að endurreisn Evrópu. Sameiginlegur skilningur þeirra sem komu að stofnun samtakanna var sá að sú endurreisn gæti aðeins átt sér stað á grundvelli þess boðskapar sem Biblían vitnar um og varðveitir.

Á allsherjarþinginu sitja um 400 fulltrúar biblíufélaganna ásamt gestum sem boðið hefur verið til þátttöku. Þingið fer fram dagana 20.-24. september og þar er m.a. fjallað um framtíðar stefnumörkun félaganna og það hvernig best verður hægt að mæta þeim viðfangsefnum sem framundan eru. T.d. má nefna að frá árinu 1970 hefur kristnum einstaklingum í heiminum fjölgað um einn milljarð, meðan á sama tíma hafa aðeins verið prentaðar 600 milljón Biblíur. Verkefni félaganna er því engan veginn lokið.

Þetta allsherjarþing er einstakt að því marki að nú er samhliða þinginu í fyrsta sinn haldið allsherjarþing unga fólksins, en þar gefst biblíufélögunum tækifæri til að eiga samtal við ungt fólk frá öllum heimsálfum um þeirra sýn á hlutverk félaganna og hvernig best verði komið til móts við þarfir kynslóðarinnar sem óðum tekur við keflinu. Þar er reynt að komast að því hvaða leiðir eru færar til að tryggja áhuga ungs fólks á því að kynna sér Biblíuna og hafa hans til leiðsagnar á lífsleiðinni.

Fyrir hönd Hins íslenska biblíufélags situr Stefán Einar Stefánsson þingið. Hann tók við stöðu framkvæmdastjóra HÍB í sumar og situr því sitt fyrsta allsherjarþing að þessu sinni.