Rembrandt málaði þessa mynd ári áður en hann lést eða árið 1668. Hann hafði áður fjallað um dæmisögu Jesú af týnda syninum með ýmsum hætti bæði í teikningum og málverkum. Myndin sýnir þá stund þegar sonurinn sem hafði sóað öllum arfi sínum snýr aftur til föður síns sem tekur honum með innilegri umhyggju. Þeir sem standa hjá fylgjast með af virðingu þegar faðirinn fyrirgefur syni sínum sem var týndur en er nú fundinn.