Markúsarguðspjall er talið elst guðspjallanna. Bæði Matteus og Lúkas nota hnitmiðaðan söguþráð þess ásamt öðrum heimildum sem uppistöðu og einu nafni eru Matteusar-, Markúsar- og Lúkasarguðspjall nefnd samstofna guðspjöllin. Markús hefur frásögn sína á því að geta orða spámanns Jesajabókarinnar er boðaði komu þess er fara skyldi á undan Messíasi og segir síðan frá Jóhannesi skírara. Hann greinir frá atburðum í lífi Jesú, dauða og upprisu en varðveitir minna efni úr kenningum og ræðum Jesú en önnur guðspjöll. Hann boðar Krist sem Guðs son er vald hafði til að kenna og lækna. Hann lýsir Jesú sem Mannssyninum er kom til þess að gefa líf sitt fyrir aðra. Tákn Markúsar guðspjallamanns er ljónið.
Skipting guðspjallsins
1.1−1.15 Prédikun Jóhannesar skírara, skírn Jesú og freisting
1.16−9.50 Starf Jesú í Galíleu
10.1−10.52 Ferð Jesú frá Galíleu upp til Jerúsalem
11.1−13.37 Starf Jesú í Jerúsalem
14.1−15.47 Pína Jesú, dauði og greftrun (píslarsaga Markúsar)
16.1−16.20 Upprisa Jesú