Síðasta kvöldmáltíðin eftir Leonardo Da Vinci er ein frægasta myndin sem gerð hefur verið eftir frásögunni um síðustu kvöldmáltíð Jesú með lærisveinum sínum. Hún þekur heilan vegg í matsal nunnuklausturs dóminikana í Mílanó, stærðin er 8,8 x 4,6 metrar. Leonardo vann að gerð verksins á þremur árum á tímabilinu 1495 til 1498. Veggmálverkið var nýlega endurgert í upprunalegri mynd.
Augnablikið sem Leonardo málar er þegar Jesús segir: „Einn af ykkur mun svíkja mig, einn sem með mér etur.” Við sjáum viðbrögð lærisveinanna við þessum orðum. Hver og einn bregst við með ólíkum hætti og sýnir mismikla reiði eða hneykslun.