Spámaðurinn Jeremía var uppi á síðari hluta sjöundu aldar og í upphafi sjöttu aldar f.Kr. Af ritinu fáum við ýmislegt að vita um líf hans og um engan spámannanna er vitað jafnmikið og hann. Megineinkenni hans er hin sára kvöl yfir að þurfa að hlýða kalli Guðs sem þrýstir honum til andstöðu við samtíð sína á tímum sífelldrar framsóknar babýlonska heimsveldisins. Á löngum spámannsferli varaði Jeremía þjóð sína við hörmungum sem hún ætti í vændum vegna skurðgoðadýrkunar og óhlýðni við lög Guðs.
Ævi Jeremía lauk í útlegð í Egyptalandi en þangað var hann fluttur nauðugur af þeim er höfðu myrt landstjórann í Júda og óttuðust hefndir Babýloníukonungs. Þá lá Jerúsalem í rúst eftir töku borgarinnar og herleiðingu stórs hluta íbúanna til Babýlonar.
Jeremía boðaði að mótspyrna gegn framsókn Babýloníumanna væri fánýt og var hann sakaður um landráð.
Einn kunnasti texti bókarinnar hefur að geyma fyrirheit um nýjan sáttmála sem ritaður verður á hjörtu fólksins (31.31–31.34).
Skipting ritsins
1.1–1.19 Köllun Jeremía
2.1–25.38 Ádeiluræður gegn Júda og Jerúsalem
26.1–45.5 Sögukaflar úr lífi Jeremía
46.1–51.64 Spádómar gegn þjóðunum
52.1–52.34 Fall Jerúsalem